150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni. Ég held einmitt að hann þekki þennan málaflokk bara ekki nógu vel, þekki ekki nógu vel hvernig sala fer fram í nútímanum, hversu auðvelt er að framleiða og dreifa vímuefnum í dag. Kannabisefni get ég kennt hér og nú, þú setur fræ í pott, gefur því vatn og ljós. Þá er það komið, nú kunna allir hér inni að framleiða kannabisefni, ekki endilega það besta í heiminum, eða það versta, eftir því hvernig litið er á það.

Flóknara er það ekki heldur, virðulegur forseti, að opna eitthvert app í dag og kaupa sér vímuefni. Sú hugmynd að núverandi stefna sé á einhvern hátt að bera árangur í baráttunni gegn vímuefnasölu er að mínu mati fráleit. Það er þess vegna sem ég spyr hér, virðulegi forseti, því að áhyggjurnar, þegar á að sýna smámannúð í málaflokknum, eru alltaf þær að neytendum muni fjölga og salan aukast. Það sem ég er að benda á er að sá tími er bara löngu liðinn að það þurfi að vera eitthvert sérstakt svæði til þess að fólk neyti þar vímuefna eða kaupi þau eða selji þau. Sá tími er liðinn, stríðið er búið og dópið vann. Spurningin er: Hvað ætlum við að gera við fórnarlömbin?