150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:44]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið. Það var kannski ekki rétt hjá mér að nota orðið fordómar heldur ætti ég að segja óþreyja eða eitthvað slíkt. Það eru margir svo áhyggjufullir sem láta eitthvað svona út úr sér. Við verðum að finna eitthvert annað og betra orð. Ég hef fylgst með þessum málum í bráðum 30 ár og mér finnast þau alltaf vera að þróast. Ég tek alveg undir með þingmanninum um að við verðum að vera með opinn hug gagnvart því hvað gagnast mismunandi fólki.

Þingmaðurinn minntist á reyktóbak. Það er ekki meðferð við því á Vogi. Það er náttúrlega fíkniefni samt sem áður en ekki hugbreytandi efni. Það er alltaf verið að leita leiða hvernig best sé að ná árangri. Við höfum heyrt í fréttum um átökin innan SÁÁ. Nú eru þau búin að slíðra sverðin og finna einhvern flöt til að vinna út frá. Það er þróun. Það er að koma miklu meiri fagmennska inn í þetta, en af því að þingmaðurinn minntist á 12 spora kerfið þá er það grunnurinn í sambandi við alkóhólisma og fíknisjúkdóma, ég lít þannig á það. Það er grunnleiðin til þess að ná árangri. Ég veit ekki hvort ég hef svarað þessu fullkomlega en ég segi: Opinn hugur og meiri fagmennska á þessum gamla grunni er það sem ég myndi vilja sjá áfram.