150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[19:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég hefði kannski átt að vera skýrari í málflutningi mínum. Ég skal alveg viðurkenna að það sem ég var að tala um, að þetta hafi reynst vel er að nálum á götum hefur fækkað um 90%. Þarna fær fólk hreina nálar og minni hætta er á að fólk hljóti skaða af neyslu. Það er það sem ég var að benda á. En að þetta minnki framboð af eiturlyfjum og þarna séu þá aðalumsvif eiturlyfjasölu — ég verð að segja að þetta er of einfalt. Við vitum að maður þarf ekki annað en að ganga inn á bar og þá getur maður fengið eiturlyf eins og maður vill. Eins og unga fólkið segir: Það er auðveldara að panta sér eiturlyf og ná í þau en að fá pítsu. Þannig að framboðið er gígantískt. Við erum búin að vera að berjast við fíkniefnamarkaðinn síðan ég man eftir mér. Ég man eftir þegar ég heyrði fyrst orðið fíkniefni. Ég veit hvernig við reyndum að berjast við þetta í lögreglunni, sem var algerlega vonlaust dæmi. Það væri sama hversu miklum peningum við myndum dæla í þetta, við getum ekki barist við þetta því að fíknin er til staðar og þessi markaður virðist vera eitthvert lögmál. Á meðan við höfum boð og bönn þá er þessi undirstarfsemi, þá eru einhverjir að græða og þá mun þessi markaður vera áfram. En spurningin er bara hvernig við ætlum að taka á fíklum sem eru veikir. Og síðan er hitt: Hvernig í ósköpunum eigum við að stoppa þennan markað? Ef ég hefði lausnir á því þá væri löngu búinn að koma með hana.