Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 103. fundur,  8. maí 2023.

aðgerðir stjórnvalda fyrir heimilin í landinu.

[15:05]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það fer víst ekki á milli mála hvernig andinn er í samfélaginu í dag. Síst hefði ég átt von á því að standa hér í þessum æðsta ræðustóli landsins og vera að tala um boðaðan mótmælafund á Austurvelli. Ég hélt að sá tími væri liðinn að það yrði virkilega farið að berjast fyrir því að kalla þjóðina saman til að rísa upp og mótmæla því ástandi sem tugþúsundir Íslendinga og heimili búa við í sárri fátækt, neyð og vanlíðan.

Mig langar í því samhengi að lesa upp orð formanns Verkalýðsfélags Reykjavíkur, Ragnars Þórs Ingólfssonar, þar sem hann er að hvetja til samstöðumótmælafundar á Austurvelli á laugardaginn kemur. Ragnar segir: Rísum upp saman. Ef þú hefur fengið nóg af hagnaði bankanna og stórfyrirtækja, ef þú hefur fengið nóg af kerfisbundnu niðurrifi grunnstoða samfélagsins, ef þú hefur fengið nóg af aðgerðarleysi stjórnvalda, ef þú hefur fengið nóg af stýrivaxtahækkunum Seðlabankans, ef þú hefur fengið nóg af versnandi stöðu í heilbrigðiskerfinu, ef þú hefur fengið nóg af stöðunni á húsnæðismarkaði, ef þú hefur fengið nóg af versnandi afkomu, eða hefur áhyggjur af framtíð barnanna okkar. Eða hefur þú fengið nóg af einhverju öðru sem betur má fara í okkar samfélagi?

Þetta þarf ekki að vera svona en staðan mun versna. Hún mun versna þangað til við rísum upp og segjum: Nú er komið nóg. Og formaður VR segir: Rísum upp saman. Hann hvetur fólk til að mæta hér næstkomandi laugardag kl. 2 til að mótmæla því hvernig þessi ríkisstjórn hefur stungið hausnum í sandinn og hefur nákvæmlega ekkert gert í núinu til að takast á við það ófremdarástand sem við erum að glíma við, sem heitir verðbólga.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er eitthvað í kortunum, hæstv. forsætisráðherra, sem við megum eiga von á að sé og verði til þess að (Forseti hringir.) við séum ekki að fara að byggja upp annað eins mótmælaástand og við þurftum að horfast í augu við í síðasta efnahagshruni?