Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 103. fundur,  8. maí 2023.

aðgerðir stjórnvalda fyrir heimilin í landinu.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Mig langar að segja fyrst að það er á engan hátt hægt að bera saman stöðuna nú og stöðuna sem hér var eftir efnahagshrun. Það er algerlega fjarri lagi þó að einhverjir kjósi að tala þannig. Þar nægir að horfa á skuldastöðu heimilanna sem er mun betri nú en í kjölfar hrunsins, auk þess sem mörg heimili þá höfðu gengistryggð lán og við skulum rifja upp að það var tekið á þeim málum. Þetta er ekki raunin nú. Rifjum það upp að verðbólgan fór þá í 19% þegar verst lét og atvinnuleysi fylgdi með og fór í 9%. Þannig að þegar hv. þingmaður kemur hér upp og lætur að því liggja að hér sé staðan svipuð og eftir hrun þá held ég að við verðum að halda okkur við staðreyndir máls. Skuldir heimilanna nú eru lágar í sögulegu samhengi og mun lægri en á árunum eftir hrun og í nýjasta fjármálastöðugleikariti Seðlabankans kemur fram það mat að borið saman við fyrri stöðu hvað varðar skuldir heimila, atvinnuástand og verðbólgu þá erum við í fullum færum til að ráða vel við þessa stöðu. Það höfum við gert, sérstaklega með því að beina aðgerðum okkar að þeim hópum sem verst standa og eru viðkvæmastir fyrir verðbólgunni. Þegar hv. þingmaður talar hér eins og ekkert hafi verið gert þá neyðist ég því miður til að rifja upp fyrir henni þær aðgerðir sem var ráðist í hér fyrir áramót hvað varðar það að auka húsnæðisstuðning, bæði til eigenda og leigjenda, þær aðgerðir sem ráðist var í til að bæta stöðu barnafjölskyldna með því að hækka barnabætur og fjölga þeim sem eiga rétt á barnabótum. Ég rifja það upp líka að ríkisstjórnin hefur boðað að brugðist verði við þessari stöðu gagnvart kannski alviðkvæmasta hópnum, sem eru örorkulífeyrisþegar, með því að tryggja (Forseti hringir.) verðbólguvörn á miðju ári.

Herra forseti. Ég hlýt (Forseti hringir.) að gera athugasemd við það að líkja þessari stöðu við það sem hér var eftir hrun, staðreyndirnar tala öðru máli. Ég hlýt líka að gera athugasemdir við það (Forseti hringir.) að því sé hér haldið fram að ekkert sé að gert.