131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Úrvinnslugjald.

686. mál
[14:31]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Inntak athugasemda minna er á svipuðum nótum og hv. síðasta ræðumanns. Hér í þessum sal hefur verið tekist á um úrvinnslugjald aftur og aftur. Það sem við ströndum venjulega á er það að aðilar atvinnulífsins geta ekki komið sér saman um hluti. Ég hef gert við það athugasemdir hér áður og tel mig knúna til að gera það enn einu sinni að svo virðist sem aðilar á vinnumarkaði eða atvinnulífið stjórni þessum lagasetningum okkar um úrvinnslugjald á úrgang og umbúðir.

Ég minnist þess að þegar við settum fyrst þessi lög á 128. löggjafarþingi var mikið um þetta fjallað, að setja úrvinnslugjald á þessa vöruflokka, þ.e. pappírs-, pappa- og plastumbúðir og sömuleiðis veiðarfæri úr gerviefnum. Við ætluðum þá, og það var eining um það í umhverfisnefnd, að sú gjaldtaka hæfist 1. janúar 2004. Síðan það nefndarálit var gefið út, með samþykki allrar umhverfisnefndar, og var náttúrlega samþykkt hér á Alþingi, hefur í tvígang þurft að fresta þessari gjaldtöku af því að atvinnulífið er ekki tilbúið. Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, að Úrvinnslusjóðurinn og þessi verkefnisstjórn núna skuli ævinlega geta teymt umhverfisráðherra út í það að biðja um endalausar frestanir.

Við erum með pólitíska stefnumörkun í úrvinnslumálum. Hæstv. umhverfisráðherrar hafa talað fyrir þeirri stefnumörkun af mikilli sannfæringu en þegar til kastanna kemur þurfa þeir svo alltaf að lúffa fyrir atvinnulífinu sem dregur lappirnar í málunum. Mér finnst bara ekki við hæfi að umhverfisráðherrar geti ekki verið harðari af sér við atvinnulífið en raun ber vitni.

Sömuleiðis vil ég rifja upp þá gagnrýni sem ég áður hef komið með á þessi mál almennt. Hún er sú að atvinnulífið hefur allt of mikið vægi í þessum málaflokki. Í öllum stjórnum og stefnumarkandi ráðum sem koma að þessum málaflokki hafa aðilar atvinnulífsins fulltrúa sína, og ég get nefnt þessa verkefnisstjórn sem hér um ræðir sérstaklega sem dæmi um þetta, sömuleiðis náttúrlega stjórn Úrvinnslusjóðsins. Ég vil ítreka það hér og bið hæstv. ráðherra að hugleiða hvort ekki sé mál til komið að breyta vægi atvinnulífsins og efla möguleika frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfisverndar og náttúruverndar og möguleika sveitarfélaganna á að hafa áhrif á þennan málaflokk. Hér hafa verið fluttar breytingartillögur við lagafrumvörp sem hafa fjallað um úrvinnslugjaldið. Þegar þetta fór upphaflega í gegn, lög um úrvinnslugjald, lagði ég fram breytingartillögu um það að stjórnin yrði allt öðruvísi skipuð en nú er. Þar vildi ég fá inn aðila frá Neytendasamtökunum og frjálsum félagasamtökum á sviði náttúru- og umhverfisverndar. Ég held að það sé alveg orðið tímabært fyrir hæstv. umhverfisráðherra að hugleiða virkilega með opnum huga að gera breytingar. Það verður að vera breiðari aðkoma að þessum málaflokki en raun ber vitni, annars virðist atvinnulífið bara hafa þessi mál í hendi sér.

Í desember sl. breyttum við síðast þessum lögum. Þá var talsvert um það fjallað hér að sú tollflokkabreyting sem yrði að gera tæki ákveðinn tíma. Fyrir þeirri breytingu voru hins vegar ákveðnar fyrirmyndir og þær eru mjög vel tíundaðar í greinargerð með frumvarpinu eins og það var lagt fram í haust. Þar erum við að fjalla um aðferðir sem Danir hafa prófað og Íslendingar hafa litið til þeirrar reiknireglu sem Danir hafa notað við það að finna t.d. umbúðamagn ef ekki er vitað hversu mikið það er. Allt þetta er tíundað í greinargerðinni með frumvarpinu eins og það var lagt fram hérna í haust og var samþykkt í desember.

Ég sé ekki á þeim gögnum sem við höfum hvers vegna allt í einu þarf fjóra mánuði í viðbót til að koma þessum breytingum á. Þegar við fengum þetta inn í nefndina fyrr í vetur virtist allt vera vel undirbyggt. Sterk rök voru fyrir því hvers vegna ætti að nota tollflokkanúmerin og hvernig ætti að nota þau. Fyrirmyndirnar voru til staðar, og ég spyr: Af hverju er það allt í einu svona flókið eins og getur að líta núna í athugasemdunum með frumvarpinu, af hverju finna menn upp á því að segja að 15% reglan um umbúðirnar, að það séu 15% af innfluttu magni, sé allt í einu svo ónákvæm að það þurfi að fresta gildistökunni um fjóra mánuði í viðbót?

Nei, virðulegi forseti, mér finnast þetta ekki góð vinnubrögð. Ég minni enn á það að upphaflega gerði Alþingi ráð fyrir því að þessi gjaldtaka gæti hafist 1. janúar 2004 og mér finnst ekki sæmandi að hæstv. umhverfisráðherra dragi svona lappirnar fyrir tilstuðlan aðila atvinnulífsins. Atvinnulífið verður bara að taka sér tak og vinna sín mál, heimavinnu sína, á þeim fresti sem því er gefinn. Við höfum verið rýmileg, við höfum lengt þessa fresti aftur og aftur, en ekki eina ferðina enn. Það bara gengur ekki, virðulegi forseti.