131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:24]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi einmitt að leikskólar, skólar, hjúkrunarheimili, íþróttahús o.fl. hafa verið byggð í einkaframkvæmd. Fólk velur það og á viðskipti út á það. Nú erum við komin að skolpinu og holræsaframkvæmdunum.

Það er ekkert við því að segja þó að einstaklingar eða stjórnendur bæjarfélaga ákveði að þeir vilji hafa þetta þannig, þó ég skrifi það mjög mikið á takmarkaðar tekjur og erfiða fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga og þung verkefni. En ég set spurningarmerki við það þegar opinberar styrkveitingar eiga að koma til framkvæmdarinnar. Ég byrjaði á að bera fram spurningu til hæstv. ráðherra áðan miðað við umsögn fjármálaráðuneytisins, sem telur að frumvarpið hafi ekki áhrif á fjárhæðina heldur einungis skiptingu á milli framkvæmda, hvort reikna mætti þá með því að styrkur fari til framkvæmdaraðilans í gegnum sveitarfélagið.

Ég set spurningarmerki við það hvort við eigum að vera með opinberar styrkveitingar til þeirra einkaaðila sem vilja byggja eitthvað í einkaframkvæmd sem þeir leigja öðrum og hafa tekjur af og væntanlega reiknað út þannig að þeir geti haft nægilegar tekjur af, að það sé þess virði að byggja. Þetta eru vangaveltur mínar.

Talað er um að við verðum að gera þessa hluti í nafni jafnræðis. Ég held einmitt að jafnræðið sé orðið til út af Hveragerði sem fékk styrk til að byggja en seldi framkvæmdina eftir á. Nú er beðið um að fá styrkinn fyrir fram eða um leið og samið er við þann sem á að fara í framkvæmdina í einkaframkvæmd. Ég hef efasemdir um þetta eins og ég sagði áðan. Ég mun skoða málið í nefnd og það má vel vera að augu mín opnist og ég sannfærist um að þetta sé rétt. Mér finnst mjög eðlilegt að við ræðum þetta vegna þess að við erum komin í einokunina hér.