131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum.

240. mál
[18:43]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að við í Frjálslynda flokknum tökum heils hugar undir efni þeirrar þingsályktunartillögu sem hér er verið að ræða og flutt er af öllum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og efnislega erum við mjög sammála því að að endurskoða þurfi búsetutengdan stuðning í sveitum landsins, endurskoða það fyrirkomulag sem er í landbúnaðinum þar sem greiðslurnar miðast nánast eingöngu við framleitt kíló kindakjöts eða mjólkurlítra og er síðan framseljanlegt eins og þekkt er.

Við Íslendingar erum búnir að fá allnokkra reynslu af framseljanlegum kerfum og kvótum. Svo virðist vera að það sé að stefna í svipaða samþjöppun í landbúnaðinum og að stórum hluta hefur átt sér stað í sjávarútveginum, nema hvað fyrirkomulagið í landbúnaðinum er þó nokkuð öðruvísi að því leyti til að verið er að kaupa framleiðslurétt sem við greiðum með af fjárlögum árs hverju sinni. Í raun og veru er verið að kaupa sér áskrift að styrkjum úr ríkissjóði.

Ég held að öllum hljóti að vera ljós sú þróun sem nú er í gangi, þ.e. mikil uppkaup á jörðum og framleiðslurétti á landinu, þeirri holskeflu. Sú þróun getur ekki verið ásættanleg til framtíðar með því fyrirkomulagi sem núna ríkir, þ.e. ávísun stóreignamanna á að kaupa sér aðgang að ríkissjóði með því að kaupa upp jarðir í stórum stíl.

Ég vil líka lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að ef hið sama gerist í sauðfjárbúskapnum, að þar safnist upp greiðslumark á tiltölulega fáar jarðir sem verði mjög stórar rekstrareiningar, þá hljóti að vakna nákvæmlega sama spurning og varðandi mjólkuriðnaðinn: Er þá nokkur ástæða til þess lengur að ríkið greiði með slíkum atvinnurekstri, þegar hann er orðinn mjög stór og afkastamikill á eins eða tveggja manna höndum? Var það einhvern tímann markmið okkar með styrkjunum í landbúnaði að þar yrðu fáir stóreignamenn með beinan aðgang að greiðslum úr ríkissjóði? Ég er einfaldlega að segja að það hlýtur að líða að því, miðað við þá þróun sem nú á sér stað, að við drögum einhvers staðar línu við hve lengi á að greiða mönnum styrki úr því kerfi sem viðgengst í dag, þ.e. þegar búreksturinn er farinn af stað, að samanstanda að því að vera kannski með 2 þús. fjár eða meira, eða þegar mjólkurframleiðslan fer að skipta mörg hundruð þúsund lítrum á einni hendi.

Ég hef um það miklar efasemdir að það hafi nokkurn tímann verið ætlun manna með því að efla og styðja við búsetu í sveitum landsins að kerfið mundi leiða til þess að tiltölulega fáar og stórar einingar stæðu eftir í rekstrinum, bæði í mjólkurframleiðslu og jafnvel síðar í sauðfjárrækt, þótt þróunin sé enn þá önnur þar. Viljum við halda kerfinu óbreyttu þegar slík staða er komin upp? Ég tel að það geti ekki verið svo. Ég tel að þeir uppkaupamenn sem núna standa fyrir miklum fjárfestingum í landbúnaði verði að gera sér grein fyrir því að það muni ekki endalaust verða vilji fyrir því á Alþingi að greiða þeim stóreignamönnum sérstakar uppbætur fyrir rekstur í því stóreignaformi sem þar í stefnir. Þegar reksturinn er kominn í slíkt form þá hljóta menn að gera ráð fyrir því að sá rekstur standi á eigin fótum án styrkja. Menn þurfa að horfast í augu við að svo geti orðið í framtíðinni.

Við í Frjálslynda flokknum höfum tekið þá stefnu, gerðum það fyrir síðustu alþingiskosningar, að við vildum breyta styrkjafyrirkomulagi í landbúnaðinum. Við orðuðum það á þann veg að breyta þyrfti núverandi styrkjafyrirkomulagi og taka upp það sem við kölluðum fjölskylduvæna búsetustyrki, fyrir að halda landinu í byggð, rækta landið og nýta það. Það er efnislega mjög líkt því sem segir í þessari þingsályktunartillögu um að skipa nefnd sem hugi sérstaklega að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum.

Það er nú ekki mjög langt á milli okkar hugmynda og þessarar tillögu varðandi það að reyna að tryggja búsetu í sveitum. Ég hef margoft sagt í þessum ræðustól að ég teldi afar verðmætt fyrir framtíð Íslands að halda landinu í byggð, þ.e. að halda jörðunum í byggð og halda þeim setnum þannig að menn sjái sér hag í að viðhalda jörðum sínum og landnýtingunni sem fæst af því að sitja bújarðir. Við ættum að reyna af öllum mætti að efla búsetustuðninginn og að breyta að hluta til kerfinu sem notast er við í dag og taka í staðinn upp búsetutengda styrki. Við í Frjálslynda flokknum erum því mjög hlynnt þeirri stefnumótun sem hér er sett fram um að skipa nefnd til að vinna þetta starf og reyna að ná sátt um að horfa til framtíðar með breyttu fyrirkomulagi og áherslum.