132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Jarðalög.

739. mál
[21:35]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei. Þessi grein snýr í sjálfu sér ekkert að því. Reglur eru mjög skýrar um jarðasölu, a.m.k. þær sem heyra undir landbúnaðarráðuneytið. Bændur eiga kauprétt eftir sjö ár núna eftir nýju lögunum og geta keypt sínar jarðir sem þeir hafa setið vel og eiga beinan kauprétt að því eftir að ákveðið opinbert mat hefur farið fram á eigninni og jörðinni sem Ríkiskaup annast og fer með.

Síðan eru allar jarðir sem seldar eru á frjálsum markaði, þær eru bara seldar hæstbjóðanda og auglýstar sem slíkar. Þannig að það er alveg skýrt. Þessar jarðir eru í sjálfu sér ekki þær sem helst er verið að tala um í þessum raðuppkaupum. Ég held að það sé nú vissara að gæta sín samt í þeirri umræðu því ég held að margir þeir sem séu að kaupa jarðir geri það í góðum tilgangi. Við verðum bara að greina þetta í sundur. Við verðum að fara yfir hvað er að gerast á markaðnum og síðan meta viðbrögðin, hvað er rétt að gera til að breyta.

Sveitarstjórnirnar höfðu hér áratugum saman réttinn til að byggja hverja einustu jörð sem fór í eyði. Þær fylgdu því ekki eftir. Þær treystu sér ekki að ná því. Jarðir fóru í eyði og þeim datt ekki í hug að nota lögin sem þeir höfðu í höndunum til að byggja jarðirnar og skipa svo fyrir að eigandinn yrði að setja ábúendur á jörðina. Þær gerðu það ekki. Þannig að það var ekki nein trygging fyrir því.

En þetta er auðvitað mjög vandmeðfarið. Við þurfum að horfa hér mjög til nágrannalanda eins og Noregs og kannski Danmerkur. Hvernig fara þau að þessu? Það þarf auðvitað að leggja skyldur á þá sem eignast landið skýrari en eru. Það er gott að heyra að þingmenn vilja fylgjast með þessum hlutum og vilja vera með í að skoða þá út frá þeirri grundvallarskoðun sem menn hafa, og er góð, að jarðir skuli vera byggðar.