139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[14:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum hér til atkvæða um sameiningu tveggja stofnana, landlæknis og Lýðheilsustöðvar. Það er mikið fagnaðarefni að þetta mál skuli loksins komið í höfn og gangi nú eftir. Ég vil við þetta tækifæri óska nýrri stofnun velfarnaðar og vona að starf þar eigi eftir að þroskast og blómgast eftir þessa nýju sameiningu.

Það hefur verið rætt um að sú nafngift sem kemur fram í endanlegri útgáfu frumvarpsins sé ekki nægilega heppileg og ýmis rök færð fyrir því. Ég bendi á að eitt af meginverkefnum landlæknisembættisins allt frá stofnun hefur verið að sinna lýðheilsumálum og er þá ekki, hv. þingmenn, kominn tími til að þess sé getið að einhverju í nafninu? (Gripið fram í: Heyr.) (Gripið fram í.)