139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Reykjavíkurflugvöllur gegnir ómetanlegu hlutverki. Hann er miðstöð innanlandsflugsins. Stjórnsýslan er þannig núna að hún er öll meira minna samþjöppuð á höfuðborgarsvæðinu og sjúkrahússþjónustan sömuleiðis. Sama er að segja um aðra þjónustu sem menn þurfa að sækja á höfuðborgarsvæðið. Nú hefur greinilega komið fram sú stefnumótun ríkisvaldsins að sjúkrahússþjónustan eigi í vaxandi mæli að færast suður og það mun hafa í för með sér að sjúkraflug þarf að aukast.

Sem miðstöð samgöngukerfisins er Reykjavíkurflugvöllur þar sem hann er staðsettur í dag ómetanlegur. Hvers konar röskun á vellinum mun því hafa stórskaðlegar afleiðingar, einkanlega fyrir landsbyggðina en hefði líka mikil efnahagsleg áhrif á höfuðborgarsvæðið. Ef völlurinn yrði færður yrði það ekki bara áfall fyrir landsbyggðina heldur líka bylmingshögg fyrir höfuðborgarsvæðið.

Þess vegna fannst mér alveg makalaust að hlusta á ræðu hv. þm. Þórs Saaris áðan en hann er eins og allir vita alþekktur kjördæmapotari héðan af höfuðborgarsvæðinu. [Hlátur í þingsal.] Skynsamlegast er að hverfa frá öllum hugmyndum um að leggja Reykjavíkurflugvöllinn af. Allir vita að það er fjárhagslega óraunhæft að færa hann til innan höfuðborgarsvæðisins og það er auðvitað mjög sérkennilegt að á sama tíma og hundruð eða þúsundir íbúða standa auðar sé færð rök fyrir því að mikilvægt sé að færa flugvöllinn til að hægt sé að byggja fleiri íbúðir í miðborginni.

Við skulum ekki gleyma því að Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki til að auðvelda ferðamönnum að heimsækja önnur landsvæði. Það væri því furðulegt ef á sama tíma og verið er að reyna að styrkja ferðaþjónustu á landsbyggðinni yrði einni af meginstoðum hennar kippt undan henni með því að færa Reykjavíkurflugvöll.

Menn tala oft um almenningssamgöngur. Hvað er glæsilegra dæmi um almenningssamgöngur en einmitt innanlandsflugið sem fer fram nánast styrkjalaust og skiptir mjög miklu máli? Það sækir hins vegar ýmislegt að innanlandsfluginu, m.a. þær miklu álögur sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að leggja á innanlandsflugið, 400 millj. kr., og eru stórskaðlegar fyrir það og hafa þegar haft þau áhrif að dregið hefur úr farþegafjölda í innanlandsfluginu.

Nú vil ég spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Það er ekki allt búið. Nú má vænta frekari niðurskurðar á þjónustu (Forseti hringir.) eða hærri kostnaðar fyrir innanlandsflugið í ljósi fjárlagaafgreiðslunnar. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra útfæra þá aðhaldskröfu sem fjárlögin fela í sér (Forseti hringir.) gagnvart innanlandsfluginu?