139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[15:41]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fulltrúi Alþýðusambands Íslands sem kom fyrir nefndina benti á að ef þetta yrði tekið upp ríkti ekki jafnræði gagnvart greiðslum úr sjúkrasjóðum verkalýðsfélaganna. Ég hygg að það komi líka fram í umsögn frá Alþýðusambandinu og ég vona að hv. þingmaður finni umsögn Alþýðusambandsins og geti staðfest hér það sem ég fullyrði, að Alþýðusambandið styðji ekki þessa tillögu.

Hv. þingmaður nefndi Krabbameinsfélagið og ég vil nefna önnur sjúklingasamtök sem eru Hjartaheill. Félagsmenn þessara félaga sem eru ýmist aðstandendur, kannski afkomendur eða foreldrar, fólks með tiltekna sjúkdóma sem oft eru arfgengir eða þá sjúklingar sjálfir, eiga þess nefnilega ekki kost að kaupa tryggingar sem þessar. Þær eru nefnilega ekki fyrir alla. Þar er ekki spurt hver geti greitt fyrir tryggingarnar, heldur hver heilsa og heilbrigðissaga viðkomandi einstaklings og fjölskyldu hans er. Þess vegna er líka eðlilegt að spyrja um jafnræðið í þessu sambandi. Ég verð að segja að það vakti mér nokkra furðu að heyra eða finna hvað þessum sjúklingasamtökum er annt um þessa leið í heilbrigðiskerfinu sem ég segi að sé að teppaleggja fyrir tvöfalt kerfi vegna þess að félagsmenn þeirra eiga þess engan kost að kaupa tryggingar sem þessar vegna heilsufarssögunnar, ekki frekar en sú sem hér stendur.

Mismununin sem ég er hér að tala um og jafnræðisbrotið er ekki peningalegt heldur annars eðlis.