139. löggjafarþing — 103. fundur,  30. mars 2011.

stjórnlagaþing.

644. mál
[17:34]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um stjórnlagaþing, nr. 90 25. júní 2010. Frumvarpið er að finna á þskj. 1134. Tillögutextinn er einfaldur í tveimur greinum, í 1. gr. að lögin sem um ræðir falli brott og í 2. gr. að lögin öðlist þegar gildi.

Við þetta frumvarp til laga um brottfall laga um stjórnlagaþing er gerð svohljóðandi tillaga um ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er heimilt að ráða starfsfólk fyrir stjórnlagaráð án auglýsingar.“

Frú forseti. Með þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 24. mars síðastliðinn var ákveðið að skipa 25 manna stjórnlagaráð sem fengi það verkefni að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögu um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það er því eðlilegt að leggja til að lög um stjórnlagaþing falli brott eins og var reyndar fjallað um í áliti meiri hluta allsherjarnefndar á þskj. 1028, 549. máli.

Frú forseti. Þau gleðilegu tíðindi hafa borist í dag og í gær að 24 af þeim 25 sem boðin var seta í stjórnlagaráði samkvæmt samþykkt Alþingis hafa ákveðið að taka til starfa í ráðinu. Það mun koma saman 6. apríl næstkomandi, eftir rúma viku. Því er ætlað að starfa í þrjá til fjóra mánuði samkvæmt ályktun Alþingis. Því er mikilvægt að unnt verði að ráða hæft starfsfólk með sem stystum fyrirvara. Við flutningsmenn, sem eru auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Róbert Marshall, Valgerður Bjarnadóttir, Þráinn Bertelsson, Mörður Árnason og Þór Saari, teljum nauðsynlegt að kveða á um að við ráðningu starfsfólks fyrir stjórnlagaráð sé ekki skylt að auglýsa laus störf samkvæmt ákvæðum 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur ríkisins, enda er um að ræða afmarkað verkefni til mjög skamms tíma. Því er lagt til að kveðið verði á um það í ákvæði til bráðabirgða. Það er rétt að fram komi að búið var að auglýsa, veita umsóknum móttöku og fara yfir og taka menn í viðtöl í 14 af þeim 15 störfum sem ætlað var að sinntu því verkefni sem hér um ræðir.

Ég legg til, frú forseti, að frumvarp þetta fari til 2. umr. að lokinni þessari og til hv. allsherjarnefndar.