140. löggjafarþing — 103. fundur,  21. maí 2012.

skimun fyrir krabbameini.

671. mál
[16:08]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um hvernig hafi verið staðið að krabbameini í ristli og endaþarmi sem hefjast átti í ársbyrjun 2009, samanber yfirlýsingar heilbrigðisráðherra frá 6. febrúar 2008 og ályktun Alþingis frá 17. mars 2007.

Því er til að svara að hér á landi hefur enn ekki verið tekin upp kerfisbundin skimun fyrir krabbamein í ristli og endaþarmi og eins og hv. þingmaður gat sér til um er meginástæðan fyrir því kostnaðurinn.

Í ályktun Alþingis frá 17. mars 2007 var heilbrigðisráðherra falið að hefja undirbúning að skimun fyrir krabbamein í ristli og endaþarmi. Í svari þáverandi heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi þann 6. febrúar 2008 kom fram að undirbúningur hæfist innan skamms og áformað væri að honum miðaði þannig að formleg skimun gæti hafist í byrjun árs 2009.

Í júní 2008 skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra ráðgjafahóp um bólusetningar og skimanir vegna smitsjúkdóma og krabbameina. Hópurinn skyldi leitast við að leggja mat á kostnaðarhagkvæmni bólusetninga og skimana fyrir lýðheilsu Íslendinga og skilgreina hvernig best væri að standa að málum. Ráðgjafahópurinn skilaði lokaskýrslu í febrúar 2009 þar sem lagt var til að hefja aðgerðir á nokkrum sviðum. Vegna þess ástands sem skapaðist í fjármálum ríkisins eftir bankahrunið haustið 2008 var ljóst að ekki yrði hægt að fara að öllum tillögum ráðgjafahópsins. Því var þeim forgangsraðað með rökstuddum hætti. Sú forgangsröðun fól í sér að fyrst yrði hafin almenn bólusetning gegn pneumókokkasýkingum meðal barna. Þær valda meðal annars lungnabólgu og eyrnabólgu. Þá kæmi að bólusetningu gegn HPV-smiti eða human papilloma-vírusi og leghálskrabbameini og síðan skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameinum. Unnið hefur verið samkvæmt þessari forgangsröðun í velferðarráðuneytinu og hófst bólusetning gegn pneumókokkasýkingum hjá börnum 1. apríl 2011. Í september 2011 var svo hafist handa við að bólusetja unglingsstúlkur gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini.

Í skýrslu ráðgjafahópsins kom fram að skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini sé talin kostnaðarhagkvæm en framkvæmd hennar sé flókin. Þar er ráðlögð skimun með leit að blóði í hægðum annað hvert ár hjá einstaklingum 60–69 ára. Ef blóð greinist í hægðum verði viðkomandi einstaklingi boðin ristilspeglun. Jafnframt er lagt til að sú reynsla sem fæst af þessari skimun verið lögð til grundvallar við nánari útfærslu í framtíðinni.

Í skýrslunni er einnig bent á að þessi rannsókn leiði til margra falskt jákvæðra prófa, þ.e. 2–8% eftir aðferðum, sem aftur leiðir til þess að margar ristilspeglanir eru gerðar þar sem ekkert krabbamein er til staðar, en ristilspeglanir eru tímafrekar og þeim fylgir einnig áhætta. Þá getur rannsóknin að sama skapi leitt til falskt neikvæðra prófa.

Árið 2007 veitti Alþingi 20 millj. kr. til að undirbúa leit fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Enn sem komið er hefur ríkissjóður ekki haft fjármagn til að hefja þessar reglubundnu skimanir en ráðgjafahópurinn taldi eins og hér hefur komið fram að skimanir fyrir aldurshópinn 60–69 ára mundu kosta um 58 millj. kr., en það er á verðlagi á miðju ári 2008. Miðað við vísitölu neysluverðs samsvarar þetta 75 millj. kr. í dag, eða einhvers staðar á bilinu kringum 67–75 millj. kr., eftir því hvaða vísitölur eru notaðar. Áætlað er að þær mundu lækka dánartíðni um 18% eins og kom fram í máli hv. þingmanns í fyrirspurninni eða forða 17 manns frá dauða ef hópnum yrði fylgt eftir í tíu ár.

Eins og hér hefur komið fram er að mörgu að hyggja varðandi skimanirnar og mikilvægt að skoða þessi mál í heildrænu samhengi miðað við aðra sjúkdóma og forvarnaaðgerðir. Málið er alls ekki af dagskrá, þ.e. vinnan liggur fyrir frá þeim hópi sem vann skýrsluna á sínum tíma. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga málefni, og vil heita því að það mun að sjálfsögðu verða haldið áfram að finna lausn á því að geta tekið upp þessa skoðun eins og samþykkt hefur verið.