141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

breytingar á stjórnarskrá.

[10:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag hefur verið boðað til fundar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar verður á dagskránni frumvarp þar sem þrír formenn stjórnmálaflokka í þinginu leggja til breytingartillögu um breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Í frumvarpinu kemur fram að það eigi að vera hægt að breyta stjórnarskránni allt næsta kjörtímabil. Mér finnst þetta mjög einkennilegt frumvarp vegna þess að í núgildandi stjórnarskrá er hægt að breyta stjórnarskránni á miðju kjörtímabili náist til þess meiri hluti í þinginu. Það fer þannig fram að ef lagðar eru fram stjórnarskrárbreytingar og þær samþykktar í þinginu skal rjúfa þing og boða tafarlaust til kosninga og svo þarf nýtt þing að samþykkja stjórnarskrána. Þess möguleiki er fyrir hendi og hefur verið það frá því að stjórnarskráin var sett 1944.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna að leggja þetta frumvarp fram nú um að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar þegar tilgangurinn með því er þegar til staðar í stjórnarskrá Íslands? Styður hún þetta frumvarp ef til þess kemur að það fari fyrir þingið? Eins og flestir vita hefur það verið kappsmál hæstv. forsætisráðherra að leggja heilt frumvarp fyrir þingið til að breyta stjórnarskránni allri en þarna virðast stjórnarflokkarnir ásamt hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni ætla að finna einhvers konar millileið til að slá ryki í augun á fólki, til að telja fólki trú um það að þessi vinna haldi áfram á næsta kjörtímabili. Heimildin er til staðar. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra á ný: Er þetta frumvarp ekki með öllu óþarft?