141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[17:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það er mjög margt í þessu frumvarpi sem ég náði ekki að fara yfir í þessari fyrstu ræðu minni sem snýr að því sem verður að skoða miklu betur. Breytingartillögur meiri hlutans í umhverfis- og samgöngunefnd eru upp á sjö blaðsíður við þetta eina frumvarp. Þó að það sé stórt og efnismikið tel ég mjög mikilvægt að skoða það nánar áður en það verður samþykkt. Ég held að við náum ekki þeim markmiðum okkar um vandaða löggjöf.

Hv. þingmaður spyr um fjárlagahlið frumvarpsins. Ég gerði hana aðeins að umtalsefni í upphafi ræðu minnar af því að ég er orðinn verulega pirraður á því að alltaf sé komið fram með frumvörp og þau samþykkt án þess að gert sé ráð fyrir kostnaði við þau í fjárlögum.

Þá blasir við spurningin: Ef undirbúningurinn er svo vandaður og vinnan búin að standa yfir eins lengi og hæstv. ráðherra heldur fram, af hverju er þá ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum fyrir árið 2013? Sú spurning blasir við en henni er ekki svarað. Ég rakti þær tölur sem koma fram og þær eru mjög vanmetnar. Það kom fram í meðförum hv. umhverfis- og samgöngunefndar að þær tölur eru miklu hærri. Ég spurði þessa í ræðu minni og vonaðist til að einhver sem gæti upplýst mig um það kæmi í andsvör.

Það sem snýr að sveitarfélögunum er líka mjög sérkennilegt. Í umsögninni er sagt að það ríki óvissa um kostnaðaráform frumvarpsins gagnvart sveitarfélögunum en samt erum við nýbúin að samþykkja lög, á árinu 2012, sem skylda ráðuneytin og ríkisstjórnina til að kostnaðarmeta frumvörpin áður en þau eru lögð fram út af kostnaðarhlið sveitarfélaganna.