149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

891. mál
[19:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fjárlagafrumvarpinu var gerð grein fyrir því að að óbreyttu myndi þetta úrræði falla niður um mitt ár. Það var í sjálfu sér ekki ákveðið með fjárlögunum heldur er það ákvæði í gildandi lögum sem orðið er nokkurra ára gamalt. Það er ágætt að greina frá því hér að hugmyndir um ráðstöfun séreignarsparnaðar komu fyrst fram af krafti fyrir kosningarnar 2013, við Sjálfstæðismenn settum það mál á oddinn í kosningabaráttu okkar fyrir kosningarnar 2013.

Frá þeim tíma hafa rúmlega 50 milljarðar verið teknir út úr séreignarsparnaðarkerfinu til þess að lækka skuldabyrði heimilanna og enn bætist í á þessu ári. Ég tel að framkvæmdin hafi verið afskaplega vel heppnuð. Það er ekki hægt að fjalla um þetta án þess að minnast á að það var í upphafi liður í samþættri aðgerð til skuldaleiðréttingar og síðan séreignarsparnaðarráðstöfunin með skattafslætti. Ástæðan fyrir því að það hefur í gildandi lögum átt að taka enda í sumar er kannski fyrst og fremst sú að þeim meginmarkmiðum sem við lögðum af stað með á kjörtímabilinu 2013 höfum við náð.

Við höfum náð betri skuldastöðu heimilanna en hún var bara hreinlega fyrir hrun. Þess vegna sögðu menn að þetta sérstaka úrræði myndi renna sitt skeið en önnur úrræði hafa verið lögfest í millitíðinni síðan sérstaklega fyrir fyrstuíbúðarkaupendur. Það kemur síðan í ljós núna kjaralotunni sem staðið hefur yfir að með því að framlengja þetta úrræði erum við að færa kjarabætur til inn á vinnumarkaðinn sem hjálpuðu til við að loka kjarasamningum. Með vísan í alla þá góðu kosti sem þetta úrræði hefur haft undanfarin ár að þá fannst mér sjálfsagt að verða við þeirri ósk, enda gat það hjálpað til við að loka kjarasamningum og mun áfram gagnast heimilunum í landinu.