149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

891. mál
[19:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frumvarpi mjög og ég reyndar fagna því að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi uppi tilburði til að vera skynsöm. Það birtist m.a. í því að hún tekur upp hvert málið á fætur öðru sem Miðflokkurinn hefur þegar lagt fram. Ég get nefnt þetta mál og ég gæti nefnt mál um kennitöluflakk, þó að ríkisstjórnin hafi ekki viljað ganga alveg eins langt og við Miðflokksmenn í því efni. En þetta er fagnaðarefni og það er alveg rétt sem hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði hér fyrr í umræðunni að við Miðflokksmenn lögðum til um jólin, þ.e. í fjárlagaumræðunni, að þetta ákvæði yrði framlengt, en ríkisstjórnin féllst ekki á það þá.

Ég skil alveg mótífið. Ég skil alveg að ríkisstjórnin, með hæstv. fjármálaráðherra í broddi fylkingar, vilji koma eins og riddari á hvítum hesti inn í kjaraviðræður og leysa málin með einu snöggu höggi. Ég skil það mjög vel. En það breytir ekki máli, það er sama hvaðan gott kemur. Og auðvitað er það rétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði hér áðan, það er alveg laukrétt hjá honum, að þessi tiltekna aðgerð var náttúrlega mjög mikilvægur hlekkur í skuldaleiðréttingunni sem var gerð á sínum tíma og er að mínu mati og margra annarra líklega ein best heppnaða efnahagsaðgerð sem farið hefur verið í á Íslandi mjög lengi.

Það er búið að afflytja þá aðgerð mjög víða og mjög oft og það er búið að segja hvað eftir annað að þetta hafi verið sniðið að einhverju ríku fólki. Því fer aldeilis fjarri. Ég man eftir því að þáverandi hv. þingmanni, nú hæstv. forseta þingsins, fannst alveg ótækt þegar við vorum að berja málið um skuldaleiðréttinguna í gegnum þingið að, eins og hann sagði, fólk gæti aukið auðlegð sína. Nú er það þannig að ef ég man rétt fór alla vega mikill meiri hluti þessarar upphæðar til fólks þar sem heimilistekjur voru svona allt að 800.000 kr., þ.e. tveir BSRB-félagar á þeim tíma, svo ég nefni dæmi, eða tveir ASÍ-félagar á þeim tíma, með meðallaun.

Ég man eftir því að ég lét þess getið við þennan hv. þingmann og nú hæstv. forseta að það væri náttúrlega skelfing til þess að vita að fólk í þessari stöðu gæti aukið auðlegð sína. Það væri alveg hroðalegt.

En auðvitað er það þannig, frú forseti, að t.d. þessi ráðstöfun hefur komið mörgum gríðarlega vel. Eins og hæstv. ráðherra benti á áðan hafa skuldir íslenskra heimila stórlækkað. Þetta hefur jafnvel gert mörgum kleift að komast langleiðina í að verða skuldlausir, eða mjög skuldlitlir. Og þess vegna kannski — svo ég segi prívatskoðun mína — gramdist mér í haust þegar átti að taka þessa ákvörðun til baka.

Sú þróun sem mér hefur sýnst verða akkúrat í þessum lið er að ungt fólk með góðar tekjur hefur getað nýtt þennan séreignarsparnað til að koma sér upp fótfestu í útborgun á íbúð, þ.e. þeir sem eru í leiguhúsnæði en búa við góð kjör að öðru leyti hafa getað leitað í þetta úrræði. Þess vegna fagna ég því enn þá meira að þetta skuli nú framlengt, einmitt út af þessum hópi, út af þessu unga, vel menntaða fólki sem alla vega vill, þorir og getur sest að á Íslandi.

Það vantar að vísu aðeins meira upp á og ég vænti þess að það sjái til aðgerða í því máli fyrr en seinna, þ.e. að lækna hér og lækka það vaxtaokur sem verður til þess að ungt fólk, margt hvert, treystir sér ekki til að flytja heim að loknu námi erlendis.

Það er í sjálfu sér alveg skiljanlegt þegar maður sér þau kjör sem fólk býr við, t.d. í Danmörku og Noregi, á húsnæðislánum og hvernig það kerfi er uppbyggt. Þá getur maður alveg í sjálfu sér skilið að fólk skuli ekki kæra sig um að koma hingað heim — eins ljótt og önugt það er að segja þetta — og vera hér í vinnu fyrir íslenska banka í 40 ár. Maður skilur það alveg.

Þess vegna veitir ekki af því að við komum fram með hugmyndir. Þeir segja nú vestur í Ameríku: Ef það er ekki bilað á maður ekki að gera við það. Í þessu tilfelli, þ.e. með þessa aðgerð, þurfti ekkert að gera við neitt. Það var ekkert bilað þannig að það þurfti ekki að hætta við þetta á sínum tíma.

Nú segi ég þetta með fyrirvara um þennan freistnivanda stjórnvalda að vilja koma, eins og ég segi, eins og frelsisher inn í kjaraviðræður á viðkvæmum punkti og kasta karamellum yfir hópinn.

Að því sögðu vona ég að þetta mál fari fljótt og vel í gegnum þingið og að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég geri ráð fyrir að fái þetta mál til afgreiðslu, verði tekið vel og rösklega á málum og að þetta frumvarp verði að lögum nú þegar í vor þannig að það verði samfella í þessari aðgerð. Að það takist að gera þetta frumvarp að lögum áður en núverandi skyldusparnaðarákvæði renna út.

Í framhaldi af þessu hvet ég hæstv. fjármálaráðherra til að gaumgæfa fleiri mál sem Miðflokkurinn hefur borið fram. Ég heyrði nú reyndar á honum í dag að hann var t.d. ekki afhuga því sem við viljum leggja til í sambandi við að ríkisstarfsmenn geti unnið lengur en til sjötugs, sem ég tel bæði mikið réttlætis- og skynsemismál. Eins og kom fram í máli hæstv ráðherra sjálfs er það að banna fólki að vinna mánuð eftir sjötugt náttúrlega sóun á verðmætum, sóun á kröftum og þekkingu — sem við höfum ekkert efni á.

Þannig að ef hæstv. fjármálaráðherra myndi nú kíkja í malinn hjá okkur Miðflokksmönnum veit ég að hann mun finna ýmislegt sem hægt er að gera gott með. Við erum ekkert sárir yfir því þó að einhverjir taki mál sem við höfum verið að bera fram. Við erum ekki með nein skrásett vörumerki á þessum málum og við viljum að þau komist fram og verði landi og lýð til gæfu. Þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til þess að skoða betur nokkuð mörg önnur mál sem við Miðflokksmenn höfum verið að bera fram.

Fyrst ég minntist á þetta sem var hér til umræðu í dag, þó að ég sé kominn aðeins út fyrir efnið, þ.e. vinnu ríkisstarfsmanna frá 70–73 ára, getur maður ekki sleppt því að minnast á góðar tillögur sem Miðflokksmenn settu fram í desember í fjárlagaumræðunni um að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur, sem er lykill að því að slíkt ákvæði virki.

En hvað þetta mál varðar ítreka ég ánægju mína og ég veit að við Miðflokksmenn munum taka vel á árinni með hæstv. ráðherra og ríkisstjórninni við að gera þetta mál að lögum eins fljótt og verða má.