149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

891. mál
[19:49]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Mig langar að koma hér upp og fagna því að þetta frumvarp sé komið fram um framlengingu á séreignarsparnaði til húsnæðiskaupa næstu tvö árin. Þetta verkefni hefur heppnast gríðarlega vel og er mjög mikilvægur þáttur undir séreignarstefnu sem við viljum byggja upp á Íslandi og Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir. Það er gríðarlega mikilvægt innlegg í það dæmi.

Fram kemur í greinargerðinni að búið sé að verja 56 milljörðum í gegnum þetta kerfi, sem sagt inn í húsnæðismálin 2014–2018, og 12,8 milljörðum á síðasta ári. Þetta eru 23.000 manns þannig að það fóru 400.000–450.000 kr. á einstakling til húsnæðiskaupa í gegnum þetta kerfi á síðasta ári. Ég tel þetta vera með allra best heppnuðu aðgerðum í mjög langan tíma til að byggja upp séreign í húsnæði á Íslandi.

Ég ætla hafa þetta örstutt og koma inn á þetta. Það gleður mig gríðarlega mikið að frumvarpið sé komið fram. Þetta úrræði hefur hjálpað einstaklingum mikið á undanförnum árum og mun halda áfram að gera það á næstu árum með því sem hér er sett fram.