149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

571. mál
[22:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir að flytja þetta mál og vekja þessa umræðu, en með því er ég nú ekki að segja að ég sé endilega tilbúinn til að samþykkja málið. Ég átti þátt í málsmeðferð hér á þinginu 2011 þegar núgildandi lög voru sett, var reyndar ekki aðili að þeim meiri hluta sem stóð að þeirri lagasetningu, hvorki í umhverfis- og samgöngunefnd þáverandi né hér í þinginu, en tók nokkurn þátt í málsmeðferðinni og undirbúningi. Þá var á því byggt að það fyrirkomulag sem hér er gert ráð fyrir, eða gert er ráð fyrir í núgildandi lögum, samræmdist skuldbindingum okkar samkvæmt Árósasamningnum, sem vissulega veitir svigrúm til að fara mismunandi leiðir til að tryggja þátttökurétt almennings í ákvarðanatöku í þessu sambandi.

Ég minnist þess að menn gerðu einhverjar atlögur að því í umhverfis- og samgöngunefnd að átta sig á réttarstöðunni í öðrum löndum en í ljós kom að það var nokkur skafl að komast í gegnum, vegna þess að þær leiðir sem eru farnar í löndunum í kringum okkur, eða þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, eru mismunandi og byggja á mismunandi kerfum.

Við völdum þá leið að horfa frekar á stjórnsýsluleið, kæruleið innan stjórnsýslunnar, en dómstólaleið og töldum að það væri í samræmi við skuldbindingar okkar að þessu leyti. Hvort meiri hluta þingsins á þeim tíma tókst vel til ætla ég að láta ósagt. En á hinn bóginn held ég að við verðum að horfa á það að þá þótti a.m.k. mér og ýmsum hér í þinginu að það væri verið að ganga fulllangt með að rýmka aðildarrétt félagasamtaka að þessu leyti. A.m.k. töldum við að það væri verið að ganga nokkuð langt miðað við réttarástandið í alla vega þeim löndum sem búa við kerfi líkust okkar.

Að þessu sögðu segi ég að það kann að vera tímabært og tilefni til þess að fara yfir réttarstöðuna að þessu leyti. Þá staldra ég við setningu sem kom fram í máli hv. þingmanns, flutningsmanns málsins, að hugsanlega, ef við horfðum á samspil þeirra laga sem hér um ræðir og síðan annarra laga sem gilda á svipuðu sviði, skipulagslaga og fleiri laga, kynni að skapast sú staða, eins og hv. þingmaður vék að, að kæruréttur kæmi í ákveðnum tilvikum til allt of seint í ferlinu, þ.e. að þegar horft er á samspil laga komi kannski kæruréttur ekki til framkvæmda eða verði ekki raunhæfur eða virkur fyrr en mál eru komin að því stigi að það þarf að gefa út framkvæmdaleyfi. Þá er auðvitað ljóst að það er ansi seint í rassinn gripið, hæstv. forseti, ef ég má taka þannig til orða. Þá er mikill aðdragandi búinn að eiga sér stað, undirbúningur og fjárfesting og annað þess háttar. Og fyrir þá aðila sem standa í framkvæmdum, hvort sem um er að ræða opinberra aðila eða einkaaðila, getur það vissulega verið ansi viðurhlutamikið að láta stoppa sig á því stigi.

Þannig að þó að ég hafi fyrirvara og jafnvel efasemdir um endanlega niðurstöðu þessa frumvarps eða þá breytingu sem þar er nákvæmlega kveðið á um, tel ég að það sé full ástæða til þess að fjalla um þessi mál hér á vettvangi þingsins og fara yfir þessa þætti. En ég myndi þá kannski vilja gera það örlítið meira heildstætt en þetta frumvarp gerir ráð fyrir þannig að við reynum, áður en við tökum ákvörðun um að gera einstakar breytingar að þessu leyti, að átta okkur á ferli þeirra mála sem lúta að framkvæmdum sem geta haft áhrif á umhverfið eða náttúruna og veltum fyrir okkur hvernig sé hægt að — hvað eigum við að segja? — minnka stjórnsýslulegar flækjur í þessari málsmeðferð án þess að það komi niður á gæðum þeirrar vinnu sem þarf auðvitað að liggja til grundvallar áður en ákvarðanir eru teknar að þessu leyti.

Ég held að framlagning frumvarpsins sé að því leyti jákvæð og þannig bara jákvætt innlegg í þessa umræðu að þar birtast auðvitað ákveðnar tillögur, ákveðin sjónarmið í þessu sambandi. En ég held að það sé í raun og veru töluvert meira sem þarf að skoða í þessu sambandi og það sé mikilvægt að gera það með því að reyna að átta sig á því og teikna upp hvernig ferli þessara mála er frá A til Ö, ef svo má segja, frá því að fyrst eru settar fram tillögur eða hugmyndir sem stjórnvöld þurfa að taka afstöðu til og þangað til endanlegar ákvarðanir eru teknar. Þó að mér finnist orðið „straumlínulagað“ ekkert endilega alltaf eiga við held ég að það geti skipt máli í þessu sambandi að ferlið sé alla vega skýrara og allir aðilar, bæði þeir sem standa að framkvæmdum, þeir sem þurfa að taka ákvarðanir um leyfisveitingar og þeir sem hafa eða kunna að hafa athugasemdir við slík áform, eigi auðveldara með að átta sig á því hvar þeir geta komið að sjónarmiðum og athugasemdum og látið reyna á rétt sinn. Því að í dag virðist manni stundum að flækjustigið sjálft sé sjálfstætt vandamál og að átakapunkturinn sé stundum allt of aftarlega í ferlinu. Það væri hægt að afgreiða eða útkljá ýmis álitamál og deilumál miklu fyrr í ferlinu og ég held að það væri æskilegt ef við gætum náð fram breytingum í þá veru.