149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

571. mál
[22:56]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á að fagna þessu frumvarpi þar sem ég er mikill áhugamaður um allt sem styrkir rétt samkvæmt Árósasamningnum. Ég ætla að játa að ég hef ekki lagst í mikla yfirlegu yfir það. Ég ákvað að kveðja mér hljóðs þegar ég heyrði orðaskipti hv. þingmanna áðan, bara til að tiltaka tvennt.

Hér var rætt um hugsanlega heildarendurskoðun og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kallaði eftir því hvað væri þá fast í hendi með hana. Því langar mig að nefna þá heildarendurskoðun sem er í gangi á sviði sem tengist þessu vissulega, sem er heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þar undir eru allar kæruleiðir. Þar undir er réttur almennings, skilgreining á hagsmunasamtökum o.s.frv. Slík endurskoðun er í gangi. Haldnir hafa verið fjölmargir fundir þar um. Mér er málið nokkuð skylt þar sem ég er formaður þess hóps sem leiðir þá endurskoðun. Henni er, ef ég man rétt, ætlað að skila af sér tillögum um þau mál fyrir lok þessa árs.

Hv. nefnd sem fær frumvarpið til umsagnar getur litið til þess, ég vil bara lyfta þessu aðeins upp inn í umræðuna, hvernig þetta muni tengjast.

Annað er að fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd liggur núna frumvarp til breytinga á lögum um upplýsingalög. Allt er lýtur að aðgangi að upplýsingum undir Árósasamningnum er þar fellt inn í þá löggjöf.

Ég vildi því líka draga það fram, án þess að ég hafi lagst í mikla yfirlegu um hvort nákvæmlega það eigi við hér, og ég sé á þeirri skömmu yfirlegu sem ég hef stundað að það á alls ekki við um allt, en vildi bara tiltaka að kannski þarf að horfa til þess við áframhaldandi vinnu varðandi þetta frumvarp að hluti af starfsemi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála verður kominn undir úrskurðarnefnd upplýsingamála, verði það frumvarp að lögum. Annað var það nú ekki.