150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:51]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Jú, ég hef einmitt fengið upplýsingar um að fólk sem er að vinna með vímuefnaneytendum, t.d. með börnum sem eiga við vímuefnavanda að stríða, starfar í raun út frá afglæpavæðingarhugmyndafræði, skaðaminnkunarhugmyndafræði, vegna þess að ef þú refsar vímuefnaneytendum er ekkert traust þarna á milli og til þess að geta unnið með fólki að bata þarf sá einstaklingur að treysta þér. Það er ofboðslega lítið traust til staðar í kerfi þar sem þú átt alltaf á hættu að vímuefnin sem þú þarft á að halda séu tekin af þér eða að þér sé á einhvern hátt refsað fyrir þína neyslu. Þetta er augljóst og ég held að það sé að verða ljósara í augum margra sem vinna við þetta, fleiri og fleiri eru að átta sig á því að þessi nálgun gengur ekki upp ef markmiðið er að hjálpa fólki.

Við sjáum það út frá rannsóknum sem hafa verið gerðar, það segir sig sjálft ef hugsað er um það, að það sem við vitum um fíkn hefur ofboðslega mikið með það að gera að við erum ekki nægilega vel tengd. Við kunnum ekki að móta þessar mikilvægu tengingar, heilbrigðu tengingar, við ástvini, við vini, við fólkið í kringum okkur, við samfélagið. Þar af leiðandi mótum við óheilbrigð tengsl við vímuefni eða þannig séð sígarettur, alkóhól eða hvað sem það er. Við erum að læra það núna að það er að miklu leyti þetta sem er að valda fíkn. Að mínu mati, ef ég má vera væmin, er svarið ekki að ýta fólki sem á við tengingarvandamál að stríða í burtu, að jaðarsetja það, heldur að opna faðminn, (Forseti hringir.) viðurkenna það, samþykkja það eins og það er og þykja vænt um það. (Forseti hringir.) Það er svarið. Þá allt í einu erum við farin að horfa fram (Forseti hringir.) á það að fólk geti náð bata, þannig sé ég þetta.