150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Frumvarp heilbrigðisráðherra sem hér er til umræðu gengur út á að heimilt verði að stofna og reka neyslurými fyrir fíkla. Markmiðið er að draga úr af skaðlegum afleiðingum notkun ávana- og fíkniefna. Þetta á að vera lagalega verndað umhverfi þar sem fíklar, eldri en 18 ára, geta neytt fíkniefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna, eins og það er orðað. Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni og gerir embætti landlæknis kleift að heimila sveitarfélagi að stofna og reka neyslurými að uppfylltum nánari skilyrðum sem eru talin upp í frumvarpinu.

Í fyrsta lagi spyr maður hvort búið sé að kortleggja þennan málaflokk nægilega vel. Er búið að safna upplýsingum sem liggja fyrir um þennan hóp og möguleg úrræði fyrir hann og hvaða útfærslur eða úrræði myndu henta honum best og skila mestum og bestum árangri? Ég vil segja það hér að sjálfsögðu er dýrmætast af öllu að geta hjálpað fíklum að hætta neyslu fíkniefna. Hver er staða þess úrræðis þegar við ræðum hér að skapa þeim rými fyrir löglega neyslu? Kannski eru til einhver gögn um það en ég hefði viljað sjá þetta rætt í því samhengi, þ.e. þau úrræði sem skila mestum árangri og hvar peningunum er best varið í þessum efnum. Setur hið opinbera nægilega fjármuni í þennan mikilvæga málaflokk? Þá á ég við úrræði til að geta fallið frá neyslu fíkniefna. Rekstur þeirra neyslurýma sem hér er rætt er um getur kostað a.m.k. 50 millj. kr. árlega, það er eflaust varlega áætlað, og væntanlega fylgir þessu starfsmannakostnaður o.s.frv., þó að vissulega séu góðir hópar að sinna þessum hóp í sjálfboðavinnu, heilbrigðisstarfsmenn, og að sjálfsögðu ber að meta það og þakka fyrir það.

Herra forseti. Ég hefði viljað að meðferðarúrræði yrðu meira tengd þessari umræðu og rædd samhliða þessu máli, árangur þeirra og hvort við getum ekki gert betur í þeim efnum. Ísland hefur fylgt banni gagnvart neyslu, sölu og dreifingu eiturlyfja, eins og við þekkjum öll, og hér er því verið að gera breytingu á þeirri stefnu. Svo veltir maður fyrir sér: Er ekki hugsanlegt að almenningur sé á móti því að hið opinbera reki neyslurými fyrir sprautufíkla sökum þess að þá sé verið að viðurkenna eiturlyfjaneyslu opinberlega og það getur hugsanlega aukið hana þegar aðgangurinn er orðinn betri með þessum hætti? Það er áhyggjuefni sem hefur komið fram hjá meðferðarfulltrúum sem hafa tjáð sig um þetta frumvarp. Er þetta mál ekki þannig vaxið að almenningur eigi að fá að segja sitt álit? Gleymum því ekki að það er verið að gera grundvallarbreytingar í stefnu þessa málaflokks.

Ég nefndi það áðan í andsvari að hvorki fyrirtæki né einstaklingar eru ánægðir að hafa slíkt rými í sínu umhverfi eða nálægt sér. Það er ein af þeim áskorunum sem lúta að þessu máli, hvar neyslurýmin eigi að vera. Viðbrögð fólks við neyslurými erlendis hafa sýnt að fólk er almennt á móti slíku í sínu nærumhverfi. Það er bara þannig. Neyslurými eru starfrækt víða í Evrópu, Kanada og Ástralíu og á þeim stöðum benda rannsóknir til að þessi starfsemi skili árangri. Hins vegar spyr maður hvort aðstæður á Íslandi séu sambærilegar. Það hefur verið bent á það að veruleikinn sé að einhverju leyti annar hér, frábrugðinn því sem þekkist víða erlendis. Reykjavík er ekki stórborg. Í stórborgum er vandamálið oft mun sýnilegra þar sem fíklar halda sig t.d. miðsvæðis, á lestarstöðvum eða í kringum athvörf fyrir þá. Fíklar í Reykjavík eru kannski ekki eins sýnilegir. En það breytir því ekki að það er ábyrgðarhluti af hálfu hins opinbera að vita af þessu ógæfusama fólki og aðhafast ekkert því til hjálpar.

Ég ítreka enn og aftur mikilvægi þess að hjálpa þessum einstaklingum. Hið opinbera á að leggja sig fram í því, en hvort þetta sé rétta aðferðafræðin hef ég efasemdir um. Vonandi hef ég ekki rétt fyrir mér, en það er mjög fróðlegt að skoða reynslu annarra þjóða hvað þetta varðar.

Ég vil koma inn á að það er nauðsynlegt að fjalla um þetta mál og horfa til athugasemda lögreglunnar sem þekkir þennan málaflokk mjög vel. Að mati lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu felur frumvarpið í sér þekkingarleysi á hlutverki lögreglu. Umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við frumvarpið sem kom á fyrri stigum málsins er mjög gagnrýnin og ríkissaksóknari tekur undir þá gagnrýni í sinni umsögn um málið. Í greinargerð frumvarpsins segir að vissulega fari eftir mati lögreglu hverju sinni hvort gripið verði til refsivörsluaðgerða gegn einstaklingi sem er með efni á sér á leið til neyslurýmis, ýmist með aðvörun, haldlagningu efna, sekt eða ákæru. Lagt er til að sveitarfélag geri formlegt eða óformlegt samkomulag við lögregluna um hvernig eigi að standa að löggæslu í grennd við neyslurými. Þetta hefur verið tekið upp í frumvarpið og það er gott og vel. Það var ekki gert á fyrri stigum og það er alveg ljóst að undirbúningi málsins á fyrri stigum var mjög ábótavant og sérstaklega hvað varðar samskipti við lögregluna og ríkissaksóknara.

Í umsögn lögreglustjóra segir að aðvörun sé ekki formlegt úrræði sem lögreglan hafi val um að beita og þess sé hvorki getið í lögum né verklagi lögreglu. Þvert á móti sé lögreglu skylt samkvæmt lögreglulögum að stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við lög um meðferð sakamála eða önnur lög. Það varði lögreglumenn refsiábyrgð að gæta ekki lögmætra aðferða við meðferð máls og á þeim hvílir skylda til að hefja lögreglurannsókn hvenær sem þess gerist þörf út af vitneskju eða grun um refsivert athæfi.

Í umsögninni er einnig vakin athygli á því að í frumvarpinu sé ekki að finna undanþágu frá ákvæði í fíkniefnalöggjöfinni sem banni vörslu og meðferð fíkniefna á íslensku forráðasvæði. Samkvæmt orðanna hljóðan geri frumvarpið ráð fyrir að neysla efnanna sé refsilaus í neyslurými en ekki í frumvarpstextanum sjálfum, sem geri ráð fyrir að varsla efna verði refsilaus.

Ég kom inn á þetta áðan í andsvari við hv. þingmann og framsögumann frumvarpsins, Halldóru Mogensen, að í frumvarpinu er lögreglu heimilt að gera samkomulag um að lögreglan grípi ekki til aðgerða gegn notendum neyslurýmis á tilteknu svæði í kringum húsnæði neyslurýma. Hér finnst mér vanta skilgreiningu. Hvaða svæði erum við að tala um? Hversu stórt er svæðið? Mér finnst þetta vera mjög opið og algerlega nauðsynlegt að skýra þetta frekar. Maður hefur áhyggjur af því, eins og ég nefndi áðan, hvort þetta tiltekna svæði í kringum neyslurými gæti orðið svæði þar sem fíkniefni yrðu jafnvel seld þeim sem eru neytendur í þessu neyslurými. Hvernig á að koma í veg fyrir það? Mér finnst þetta vera óskýrt og það þurfi að fara nánar yfir þetta.

Lögreglustjóri hefur vakið athygli á því að til þessa hafi sjálf neysla fíkniefna ekki verið talin refsiverð og menn hafi ekki verið sóttir til saka fyrir það eitt að neyta fíkniefna heldur hafi menn einungis verið sóttir til saka fyrir vörslu þeirra. Ekki sé gerð undanþága í frumvarpinu frá refsiheimild þess efnis sem fyrr segir. Lögreglustjórar telur að verði frumvarpið óbreytt að lögum muni það ekki hrófla við skyldu lögreglu til að haldleggja ólögleg ávana- og fíkniefni og gera þau upptæk sem skylt sé samkvæmt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni sem skyldi lögreglu til að gera upptæk til ríkissjóðs þau efni sem lögin taka til og aflað hafi verið á ólögmætan hátt eða á annan hátt í ólögmætri vörslu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir refsileysi starfsmanna neyslurýmis og kveðið á um að þeir verði ekki sóttir til saka látist einstaklingur undir þeirra eftirliti. Er vísað til þess að neyslurýmið eigi að vera refsilaust rými. Lögreglustjórinn lýsir efasemdum um að texti greinargerðarinnar um refsileysi starfsmanna haldi, enda taki frumvarpið eingöngu til fíkniefnalöggjafarinnar. Taka verði af tvímæli í frumvarpinu um að sérhver refsiverður verknaður verði refsilaus í neyslurýminu enda augljóslega ekki markmiðið. Þá er ónákvæm lýsing í frumvarpinu á hugtakinu neysluskammtur einnig gagnrýnd í umsögninni, þar er gert ráð fyrir að neytandi megi hafa einn neysluskammt með sér í neyslurými í hvert sinn. Skilgreiningin geti skipt máli, bæði vegna fyrirhugaðs refsileysis vörslu en einnig vegna mögulegrar ábyrgðar eða ábyrgðarleysi starfsmanns í eftirliti, deyi notandi af of stórum skammti.

Allt eru þetta mjög góðar athugasemdir. Eitthvað af þessu hefur ratað í frumvarpið en ég átta mig ekki fyllilega á því hvað það er. Það er ekki að finna í frumvarpinu.

Auk þess er rétt að benda á hvað undirbúningi þessa máls var ábótavant þegar kemur að samráði. Þá er athyglisvert að lesa í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu einmitt um samráðið. Þar segir að áður en áform um frumvarpið voru birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins hafi verið haldnir fundir með tilgreindum aðilum, m.a. lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Síðan segir að sá fundur hafi ekki snúist um samráð, en það var boðað til hans sem samráðsfundar, heldur kynntu starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins áform um fyrirhugað frumvarp. Það var bara búið að ákveða að þetta frumvarp kæmi fram og í raun og veru hefði lögreglan ekkert með það að gera. Það er ekki hægt að lesa annað út úr þessu. Starfsmenn lögreglu gerði á fundinum strax athugasemdir við áformin og nefndu flest þau atriði sem reifuð eru í umsögninni.

Það er alveg ljóst að hér hafa menn náttúrlega kastað til hendinni í upphafi vinnu þessa máls og með ólíkindum að þetta skuli hafa verið gert með þessum hætti.

Svo ég haldi áfram með umsögnina þá eru áform um að breyta refsiákvæðum og áralangri framkvæmd þess eðlis að þau krefjast vandaðs undirbúnings, sér í lagi þegar um er að ræða breytingar á löglegu hlutverki lögreglu og skyldum hennar við meðferð sakamála. Í ljósi þess að fyrirhuguð breyting er flókin í lagatæknilegu tilliti þá hefði verið heppilegt að leita umsagnar refsiréttarnefndar og réttarfarsnefndar dómsmálaráðuneytis sem veita umsagnir um frumvörp og aðrar tillögur er varða refsirétt og réttarfar.

Embætti ríkissaksóknara kveður fastar að orði um samráðsleysið og það er mjög athyglisvert. Embættið segir að málið hafi á engum stigum, ég ítreka engum stigum, verið unnið í samráði við ríkissaksóknara og embættið ekki á meðal þeirra 94 aðila sem fengu umsagnarbeiðnir frá velferðarnefnd. Ég endurtek: Ríkissaksóknari var ekki meðal þeirra 94 aðila sem var boðið að senda inn umsögn um frumvarp þar sem á að fara að lögleiða neyslu fíkniefna í ákveðnum neyslurýmum. Þetta segir allt sem segja þarf um hvernig nefndin hefur staðið að undirbúningi þessa máls.

Þegar ég spurði hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson í andsvari hvort tekið hefði verið tillit til þessara athugasemda var svarið á þá vegu að það hefðu komið tölvupóstar um að það væru ekki gerðar athugasemdir. Ég hef ekki séð þessa tölvupósta. Af hverju er það ekki sett hér í frumvarpið að þeir geri ekki neinar athugasemdir? Ég bara spyr. Hv. þingmaður nefndi þá að þeir hafi ekki sent inn aðra umsögn. Er nauðsynlegt að senda stanslaust inn sömu umsögnina? Þetta er mjög skýrt og það sem mér finnst vanta er með hvaða hætti var hlustað á þeirra málflutning í þessu.

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er hálfpartinn orðlaus yfir þessu samráðsleysi gagnvart þessum mikilvægu stofnunum okkar og mér finnst það einkennilegt hjá fólki sem er í stjórnmálum og vill láta taka sig alvarlega að það skuli ekki hafa gert þetta á þeim tímapunkti sem var eðlilegt að kalla til þessa aðila.

Ríkissaksóknari tekur undir athugasemdir við frumvarpið sem fram koma í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og kemur því skýrt á framfæri að hann telur ekki rétt að samþykkja frumvarpið á meðan ekki liggur fyrir hvaða breytingar verða á heimildum og skyldum lögreglu og ákæruvalds við lögfestingu frumvarpsins.

Það er fróðlegt, herra forseti, að fara yfir umsagnir hvað þetta mál varðar, t.d. frá SÁÁ þar sem spurt er hvernig verði passað upp á að verkefnið vinni ekki gegn sjálfu sér. Það er mjög góð spurning. Það þurfi að leitast við það að þessi hópur verði alltaf eins lítill og mögulegt og hægt er. Er ekki hættan sú, herra forseti, að þessi hópur geti stækkað með þessu neyslurými sem er þá orðið auðveldara aðgengi og refsilaust? Þetta er spurning sem þarf að svara. Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir að það verði ekki fjölgun í þessum hópi þegar það er verið að lögleiða neyslu á ákveðnum stöðum? Auk þess kemur fram í umsögn frá SÁÁ að ekki sé rétt, eins og fram hefur komið, að þessi hópur sæki ekki í heilbrigðiskerfið, það sé einfaldlega ekki rétt. Upplýsingar bendi til annars, þessi hópur sæki til heilbrigðiskerfisins og fái þjónustu þar sem honum er nauðsynleg og á svo sannarlega rétt á og það sé reynt að halda utan um það fólk sem sækir þangað, svo því sé haldið til haga.

Auk þess er áhugaverð umsögn frá Félagi áfengis- og vímuefnaráðgjafa þar sem koma fram margar spurningar sem þarf að svara. Það er t.d. spurt um þjálfun starfsfólks sem ekki er heilbrigðisstarfsmenn og hverjir sjái um þá þjálfun, hvort gert sé ráð fyrir að þarna fari fram einhver aðstoð til að hjálpa fólki í meðferð, óski það eftir því. Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa segir að það sé mikilvægt að málið verði unnið mun betur áður en það fer í afgreiðsluferli og það mætti gjarnan leita til starfsfólks á vímuefnadeild geðsviðs Landspítalans, starfsfólks SÁÁ og Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Það eru hér þó nokkrar umsagnir þar sem er einmitt verið að tala um að málið sé ekki nægilega vel unnið og haft lítið samráð. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni í þessu ferli. Ég hefði talið að þegar um svona stórt mál er að ræða, vegna þess að það felur í sér umtalsverða stefnubreytingu, þá myndu menn vanda betur til verka. Og það ætla ég að láta vera mín lokaorð að miðað við þau gögn sem ég hef verið að lesa og umsagnir sem ég hef farið yfir, sýnist mér að það hafi engan veginn verið nægilega vel farið yfir málið og leitað ráðgjafar til þeirra sem best þekkja í þessum málaflokki, bæði hvað lögreglu varðar og einnig vímuefnaráðgjafa. Mér finnst mjög dapurlegt að það skuli ekki hafa verið gert. Og það er greinilegt að það er mörgum spurningum enn ósvarað um þetta mál.