150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil koma aðeins inn í umræðuna vegna þess að ég hef orðið vitni að því sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefndi áðan. Að mínum dómi hafa þingmenn Pírata með háttsemi sinni í þingsal og í ræðum lagt upp með að þeim líki ekki við hv. þm. Ásmund Friðriksson. Ég minni á að þingmaður innan þingmannahóps Pírata hefur verið ásakaður um, eða alla vega fengið dóm um það hjá siðanefnd Alþingis, að hafa farið ranglega með ummæli í garð hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar. Ég vil segja að mér finnst háttsemi þingmanna Pírata í garð þingmannsins jaðra við einelti á köflum. Í hvert einasta sinn sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson stendur í ræðustól sér maður Pírata brosa eða hlæja eða kalla fram í. Ég hef margsinnis orðið vitni að því. Það er háttsemi sem mér finnst að Píratar ættu að leggja af. Það er bara þannig.