150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir með honum að það er engin krafa um að þingmenn séu sammála innan flokka, sér í lagi varðandi svona mál. Það er víðfrægt að þegar hið margumtalaða áfengismál, þ.e. hugmyndin um að setja áfengi í búðir, ber hér á góma fer starf Alþingis algerlega á hliðina, það fer allt í upplausn, þar á meðal nefndastörf. Það er spaugileg saga að segja frá því þótt afleiðingar geti reyndar verið alvarlegar.

Ég hjó eftir einu sem hv. þingmaður nefndi í sambandi við meðferðarúrræði. Þar talaði hv. þingmaður um það sem maður skynjar sem fordóma gagnvart þeim meðferðarúrræðum sem hér eru til staðar. Mig langar að heyra aðeins meira frá hv. þingmanni um það. Án þess að ég sé endilega mikið ósammála honum þá sé ég þetta öðruvísi. Mér hefur sýnst það vera þannig að hugmyndin um hvaða meðferð virki hafi verið frekar einstrengingsleg, hugmyndin um það, ekki meðferðin sjálf. Meðferðin sjálf virkar alveg fyrir sumt fólk en ekki alla. En hún hefur hins vegar verið kynnt þannig fyrir fólki að það sé eina rétta leiðin, nefnilega 12 spora kerfið sem notað er hjá SÁÁ. Eftir að hafa sjálfur barist við fíkniefnadjöfulinn og sigrað hann í tilfelli tóbaksfíknar, sem getur verið mjög strembin eins og fólk veit sem þurft hefur að berjast við hana, þá henta misjafnir hlutir misjöfnu fólki. Ég held t.d. ekki að SÁÁ-leiðin hefði hjálpað mér neitt. Ég fann aðra leið sem virkar fyrir mig. Er því ekki eðlilegt að sé ákveðin flóra af meðferðarúrræðum sem virka mismunandi fyrir fólk eftir því hvar það stendur í lífinu, hverju það trúir og í rauninni hver rót vandans er? Því að rót vandans er líka misjöfn, sumt fólk misnotar vímuefni vegna einhverra undirliggjandi ástæðna. Annað fólk misnotar tóbak bara vegna þess að það reykir svo mikið af sígarettum og þá verður maður háður þeim. En það er ekki alveg klippt og skorið, finnst mér. Ég er ekki beinlínis með spurningu og ekki endilega ósammála hv. þingmanni. Mig langaði að heyra meira um skoðun hans.