150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[19:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er til margt fólk sem myndi vilja búa í vímulausu samfélagi, telur sig alla vega vilja það. Mér finnst þó áhugavert — ég vona að ég sé ekki að berja dauðan hest, eins og sagt er — að áfengi virðist alltaf vera undanskilið þegar kemur að umræðu um vímuefni og þess háttar. Það er góð ástæða fyrir því og hún er sú að áfengi er löglegt, áfengi er samfélagslega viðurkennt. En áfengi er vímuefni. Þegar fólk segir vímulaust Ísland finnst mér að það þurfi í leiðinni að segja hvort það vilji banna áfengi, það felur það í sér ef leiðin er að ná vímulausu Íslandi fram með banni. Hin leiðin er að reyna að gera samfélagið vímulaust án banns. Sjálfur tel ég það ekki vera raunhæft, ekki vera mögulegt. Ég tel manneskjur vera þess eðlis að þær vilji neyta vímuefna. Það eru mjög fá samfélög sem ég veit um þar sem enginn neytir vímuefna, meira að segja ekki í samfélögum þar sem það er harðbannað, jafnvel þar sem mjög grimmilega er refsað fyrir vímuefnaneyslu af öllu tagi. Þetta er bara eitthvað sem fylgir manneskjunni á sama hátt og fólk trúir alls konar steiktum hlutum sama hvað öðrum finnst. Manneskjur syngja og dansa þótt enginn augljós tilgangur sé með því, enginn praktískur tilgangur. Við erum bara ekki þannig dýrategund að við mætum alltaf í vinnuna og gerum bara akkúrat það sem er uppbyggilegt fyrir samfélagið okkar hverju sinni, enda er lífið sem betur fer meira en það.

Mér finnst mikilvægt að hafa þetta í huga vegna þess að eins og kemur fram í þessu frumvarpi og sést frekar vel þá eru vímuefni misjöfn. Þau eru misjöfn að eðli og hafa misjöfn áhrif. Í íslenskri orðræðu og víðar er yfirleitt látið eins og það sé annars vegar áfengi og hins vegar allt hitt. Allt hitt er miklu fjölbreyttara en svo. Þetta ætti að vera frekar augljóst.

Nú hef ég haldið þennan pistil oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í þessari pontu, virðulegi forseti, og það er svo sem ekki ástæða til að endurtaka hann enn og aftur. En ég kem upp vegna þess að hér hafa aðrir hv. þingmenn tekið til máls og haft áhyggjur af því að þetta mál sé einhvers konar feilspor, hafa nefnt ýmsar ástæður. Verð ég fyrir fram að hafa þann fyrirvara á að ég er ekki alveg viss um að ég skilji málflutninginn nógu vel til að geta endursagt hann af sanngirni. Ég neyðist til að lýsa honum eins og ég skil hann og það getur verið ósanngjarnt. Ég reyni að vera sanngjarn ef ég mögulega get.

Sumir hafa áhyggjur af því að með því að koma á fót neyslurýmum eins og þeim sem fjallað er um í frumvarpinu gæti neysla aukist. Þá væru komnir einhvers konar kjarnar þar sem fólk gæti komið að og vitað að þar væru vímuefni, þar væru vímuefnaneytendur og þá væntanlega með einhverjar tengingar, eitthvað því um líkt. Þetta kom t.d. fram í máli hv. 3. þm. Suðurk. Birgis Þórarinssonar og hv. 4. þm. Suðurk. Ásmundar Friðrikssonar áðan. Því er til að svara að í fyrsta lagi tel ég þetta ekki vera raunverulega hættu. Ég hugsa að meiri vímuefnaneysla gæti mælst á því tiltekna svæði, mér finnst það eiginlega liggja í hlutarins eðli. En við sjáum almennt ekki vímuefnaneyslu í samfélaginu. Það hlýtur að vera augljóst að yfirþyrmandi meiri hluti af þeirri vímuefnaneyslu sem á sér stað í samfélaginu er fullkomlega ósýnilegur okkur, sér í lagi sú neysla sem ekki kallar á neina hjálp frá lögreglu eða heilbrigðisyfirvöldum.

Já, virðulegur forseti, sú neysla er til þótt erfitt sé að trúa því fyrir suma nema auðvitað ef það er áfengi. Þá allt í einu er það ekkert mál af einhverjum undraverðum ástæðum.

Ég vil einnig segja að jafnvel þó að hægt væri að sýna fram á að þetta úrræði myndi auka neyslu má það ekki vera eini hluturinn sem við erum að hugsa um. Það eru nákvæmlega mistök hins svokallaða fíkniefnastríðs að líta alltaf á það hversu mikið af efnum er verið að neyta og jafnvel, í enn heimskulegri útfærslu, hversu mikið af efnum er verið að gera upptæk af lögreglunni. Það eru í alvörunni til aðgerðaáætlanir, sér í lagi í Bandaríkjunum, sem miða árangur út frá því hversu mikið af dópi er gert upptækt, sem er sturluð nálgun. Því stærri sem vandinn er því meira er gert upptækt að jafnaði og þar af leiðandi er árangurinn meiri, sem er galið. Punkturinn er sá að neyslan sjálf má ekki vera það sem við erum að reyna að stoppa heldur neikvæðar afleiðingar af henni og auðvitað er fylgni þar á milli. Augljóslega. Því meiri sem neyslan er í samfélaginu almennt því meiri líkur eru á að einhver vandamál verði úr því. Það eru vandamálin sem eiga að knýja okkur áfram til aðgerða, ekki neyslan sjálf sem slík. Ef við gætum fundið upp vímuefni, jafnvel eitthvað stórhættulegt, lífshættulegt, hræðilegt vímuefni eins og áfengi, en gætum skorið burt allar neikvæðar afleiðingar af því þá ætti að taka því sem sigri, við ættum að fagna því. En mér segir svo hugur að slíkt vímuefni yrði fordæmt frekar hratt. Það er undirliggjandi tónn í umræðunni í samfélaginu, birtist held ég aðeins minna hér á þingi þessa dagana, seinustu árin, en við kaffiborðin eða matarborðin eða hvaðeina, að fólk er á móti neyslunni, á móti vímunni. Það er röng nálgun.

Virðulegi forseti. Það er gott og blessað að vera persónulega þeirrar skoðunar að fólk eigi ekki að nota vímuefni af einhverjum andlegum ástæðum, að mannshugurinn sé á einhvern hátt heilagur, að það beri ekki að spilla honum eða eitthvað því um líkt. Ég skil það sjónarmið, ég er ekki alveg sammála en ég skil það. Þá er gott og blessað að fólk taki þá ákvörðun fyrir sig sjálft. Það er ekki gott og blessað að fólk taki slíkar ákvarðanir fyrir annað fólk. Þetta er nákvæmlega sama sagan og hvað varðar skoðanir, hvað varðar myndefni sem fólk vill horfa á, hvaða trúarbrögð það kýs að aðhyllast. Það að manneskjan sé frjáls þýðir óhjákvæmilega að hún er frjáls til að gera hluti sem aðrar manneskjur myndu gera athugasemdir við, myndu ekki kjósa í sínu eigin lífi og myndu ekki kjósa í lífi sinna nánustu ættingja. Ég get opinberað það að mér þætti ekki gott ef nánustu vinir mínir færu allt í einu að tilheyra einhverjum sértrúarsöfnuði eða taka upp trúarbrögð sem ég teldi skaðleg. Mér þætti það ekki gott en það þýðir ekki að ég myndi banna það. Mér þætti það ekkert gott að mínir nánustu vinir og ættingjar hreyfðu sig aldrei og gerðu allt sem er óhollt og ekkert sem er hollt en ég get ekki bannað þeim það. Ég vil ekki banna þeim það. Það á ekki banna þeim það. Það er ekki rétta leiðin, virðulegi forseti. Jafnvel þó að slík vandamál færu að aukast aðeins í samfélaginu myndi ég ekki vilja banna það.

Ég nefni þetta, virðulegi forseti, vegna þess að frumvarpið felur í sér að gera undantekningu á þeirri stefnu sem er við lýði á Íslandi og í hinum svokallaða vestræna heimi almennt, sem er að banna þetta. Það er í sjálfu sér og í eðli sínu skaðlegt. Jafnvel þó að það nái einhverjum öðrum markmiðum, að því er fólk heldur, svo sem því að draga úr vímuefnaneyslu, er skaði að því. Því markmiði er þá náð ef bannið virkar með því að skaða hagsmuni fólks nógu mikið til að það forðist vímuefni. Það er heila pælingin, það er meira eins og ef við myndum eitra vímuefnin, gera þau enn þá verri. Hvernig myndi það hljóma, virðulegi forseti? Við erum með eitthvað hræðilegt, lífshættulegt dóp eins og áfengi og ætlum að gera það enn þá eitraðra. Þá myndi fólk væntanlega drekka minna. Er það ekki? Fólk hlýtur að sjá hvað það er sturluð hugmynd. En það er í reynd nákvæmlega hugmyndin sem er undirstaða nálgunarinnar í hinum svokallaða vestræna heimi sem er að gera það nógu vont fyrir fólk að nota vímuefni svo að það noti ekki vímuefni.

Vandinn er þessi, virðulegi forseti: Fíkn. Fíkn er ekki bara það að fólk langi að gera eitthvað og geri það. Ef svo væri þá væri það ekki skilgreint sem sjúkdómur af neinum. Fíkn er sjúkdómur sem fær fólk til að gera hluti sem það ætti að vita að gera því illt. Ef það virkar ekki á manneskju sem er mjög langt leidd af fíkn að hún missi vinnuna, að hún missi vini sína og að hún missi fjölskyldumeðlimi sína, að hún missi allt, mun það þá að stöðva hana að hóta henni fésekt eða fangelsisdómi?

Virðulegur forseti. Ég er ekki að segja þetta til að reyna að kalla fram einhverja samúðartilfinningu. Ég er að benda á að þetta er ekki rökrétt, þetta stenst ekki heila hugsun. En þetta er samt undirstaða stefnunnar hér sem annars staðar, sama hvað hver segir. Og þá eigum við að breyta þeirri stefnu og hætta að refsa vímuefnaneytendum alfarið, við eigum ekki að refsa þeim neitt, ekki á neinn hátt. Það er sjálfsagt og jafn sjálfsagt og að eitra ekki áfengið. Róttækari er sú hugmynd ekki.

Í kjölfar ræðna hv. þingmanna hér áðan er ágætt að nefna líka útfærsluatriði frumvarpsins sem felur í sér að veita sveitarfélögum heimild til að koma á fót neyslurýmum. Það er mikilvægt. Hér áðan var talað eins og það ætti að skilgreina einhvern veginn í löggjöf hvar þessi svæði yrðu, hversu stór þau yrðu og þess háttar. Frumvarpið gerir einmitt ráð fyrir því að slíkar ákvarðanir og sú umræða fari fram á þeim vettvangi þar sem upplýsingarnar eru til staðar, nefnilega hjá sveitarfélögunum sjálfum. Það er ekkert sem neyðir sveitarfélögin, að mínu mati því miður, til þess að búa sig undir þessa starfsemi.

Ég verð líka, vegna þess að hv. 3. þm. Suðurk., Birgir Þórarinsson, fór aðeins yfir í þá sálma að nefna mál sem virðist kannski í fljótu bragði óskylt þessu og er það reyndar að mínu mati, þ.e. hann vildi fá álit þjóðarinnar á þessari grundvallarbreytingu. Ég heyrði ekki annan rökstuðning en þann að um væri að ræða einhverja grundvallarbreytingu. Því miður er það rangt hjá hv. þingmanni að þetta sé grundvallarbreyting, algjörlega kolrangt. Þetta er breyting sem væri óþörf og algjörlega úr öllu samhengi nema vegna þess að þetta er ekki grundvallarbreyting. Ef við værum að gera grundvallarbreytingu væri ekki hægt að leggja svona frumvarp fram vegna þess að það væri enga undantekningu að veita frá núverandi löggjöf sem er sú að refsa vímuefnaneytendum. Þannig er löggjöfin sama hvað tautar og raular og neytendur vita það mætavel.

Það er vinsælt hjá sumum stjórnmálaflokkum að kalla, að því er virðist í einhvers konar hálfkæringi, eftir aðkomu íbúa eða þjóðarinnar eða kjósenda að ákvörðunum sem þeim finnst sjálfum vera varhugaverðar, eins og hv. 3. þm. Suðurk. finnst þessi ákvörðun bersýnilega vera. Allt slíkt tal hlýtur að byggja út frá þeirri grundvallarhugsjón sem er sjálfsákvörðunarréttur. Hann er ekki aukaatriði þegar við tölum um lýðræði eða frelsi. Sjálfsákvörðunarrétturinn er aðalatriðið, bæði hvað þetta mál varðar, þ.e. rétt einstaklinga til að fara með sinn skrokk og sinn heila og sína sál eins og þeim sýnist, og líka rétt þjóðarinnar, kjósenda og íbúa, til að ráða sínum málum á eigin forsendum. Það er undarlegt að taka fyrir eitt svona mál og skella því upp sem einhverju til að meta í þjóðaratkvæðagreiðslu eða íbúakosningu, sem enginn hefur kallað eftir, að mér vitandi, ekki nokkur maður nema hv. þingmaður sem hér stóð; ég veit ekki betur, kannski hef ég rangt fyrir mér. Kannski er það 10 manns, kannski 500 en ekki þær þúsundir sem þyrfti að vera til að uppfylla skilyrðin sem hingað til hafa verið lögð til til að hægt sé að knýja fram bindandi atkvæðagreiðslu þjóðar um tiltekin málefni.

Ég bara verð að nefna þetta vegna þess að mér finnst það líka skipta máli í þessu samhengi að við erum að tala um mál sem varðar réttindi einstaklinga til að fá að vera í friði með sinn sjúkdóm. Og jafnvel þótt fólk væri ekki með sinn sjúkdóm ætti það að sjálfsögðu að hafa þann rétt. Þetta þykir nú kannski öfgafull frelsisdýrkun frá þessum hv. þingmanni í röðum þeirra flokka sem mest tala um frelsið í kosningum. En það hlýtur að vera augljóst að frelsi einstaklingsins getur ekki hvílt á geðþótta meiri hlutans. Það er ekki lýðræði, virðulegi forseti. Í frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár eru sem dæmi undantekningar á því hvað megi fara í þjóðaratkvæðagreiðslu nákvæmlega vegna þess að það kemur svo oft fyrir stjórnmálamenn að vilja ná sínum vilja fram. Þeir vilja velja hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og þeir vilja setja út fyrir grundvallarprinsipp lýðveldisins spurningar sem á ekki að spyrja eins og þeirrar hvort fólk eigi að hafa tjáningarfrelsi, hvort fólk eigi að njóta sanngjarnra réttarhalda, hvort fólk eigi að njóta jafnræðis fyrir lögum. Þetta eru grundvallaratriði lýðræðisins alveg eins og þjóðaratkvæðagreiðslur. Mér finnst það óábyrgt að henda fram einhverju svona máli í þeirri von að einhver bíti á agnið og fari að berjast meira fyrir því að málsmeðferðin sé á einhvern hátt ólýðræðisleg eða vond, bara vegna þess að hv. þingmaður er efnislega ósammála frumvarpinu. Það er röng nálgun, virðulegi forseti, og mér finnst hún óábyrg, mér finnst hún alltaf óábyrg.

Ég hygg að hugmyndin með þessari orðræðu sé sú að reyna að slá ryki í augu kjósenda um að þeir stjórnmálamenn og þeir flokkar sem kalla eftir auknu lýðræði geri það einungis eftir eigin geðþótta í þeim málum sem þeim þóknast sjálfum. Það er rangt, virðulegi forseti, og það er grundvallaratriði að það sé rangt. Það ber að vera skýrt hvernig íbúaatkvæðagreiðsla eða þjóðaratkvæðagreiðsla er knúin fram. Það eiga að vera skýr takmörk á því til þess að stjórnmálamenn misnoti ekki það vald og kalli það lýðræði. Það eru dæmi um það, það er fullt af dæmum um það og þau ber að varast. Ég varð að nefna þetta, virðulegi forseti, þótt mér finnist þetta sjálfum fara út fyrir efnið vegna þess að hv. þm. Birgir Þórarinsson fór út í þessa sálma og mér fannst nauðsynlegt að svara því. Það má ekki standa eftir ósvarað að mínu mati að þessi málsmeðferð sé á einhvern hátt ólýðræðisleg. Svo er ekki og það er mjög mikilvægt að það sé alveg á hreinu hvers vegna svo er ekki.

Eins og kannski er ljóst þá styð ég þetta mál. Mér finnst þetta gott mál. Ég styð það með þeim fyrirvara að mér finnst leitt að þetta þurfi. Það má vel vera að útópía sumra sé vímulaust Ísland, en það er ekki útópían mín. Útópían mín er miklu fjölbreyttari en það. Ég vildi óska þess að það væri bara óumdeilt og ekki háð neinum tilteknum svæðum að fólk fengi alla þá löggæslu og heilbrigðisaðstoð sem það þyrfti, óháð því hvort það væri að neyta vímuefna eða ekki. Mér finnst það bara sjálfsagt. Mér finnst að það eigi að gilda á Austurvelli, alls staðar og mér finnst það algerlega sjálfsagt. En við búum við þetta umhverfi og þessa stefnu með öllum hennar göllum og þetta er lykilskref í átt að því að geta tekið utan um þann hóp fólks sem verður fíkninni að bráð og hjálpað því á grundvelli mannúðar og skynsemi. Viti menn: Stundum fer þetta tvennt bar fjári vel saman.