Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 103. fundur,  8. maí 2023.

matvælaverð á Íslandi.

[15:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í sjónvarpsfréttum um helgina kom fram að verðlagsnefnd búvara væri að kynda undir verðbólgu með hækkunum á afurðum. Formaður Neytendasamtakanna benti réttilega á að mjólkurvörur hefðu hækkað meira en sem nemur almennri verðbólgu og neytendur væru þannig einir látnir bera þungann af hækkunum og auðvitað er þetta hrópandi óréttlæti. Ég kom reyndar upp hér í síðustu viku og innti hæstv. forsætisráðherra eftir aðgerðum til að bregðast við stöðunni, þessu verðbólgubáli sem nú logar hér í samfélaginu, en það var fátt um svör og í raun fannst mér um ákveðið fálæti að ræða. Raunveruleikatengingin var frekar lítil og á meðan hlaðast hækkanir ofan á venjulegt fólk, venjuleg heimili, sem hefur ekkert val um annað en að taka á sig hækkanir vegna verðbólgu. Ríkisstjórnin er að skila auðu og þetta eru helstu hagsmunaaðilar að ítreka aftur og aftur, ekki bara við í Viðreisn. Ólíkt 200 stærstu útflutningsfyrirtækjunum, reyndar 250, sem gera upp í erlendum gjaldmiðlum og verðbólgan snertir ekki, lætur ríkisstjórnin verðbólguna bitna á heimilum landsins. Og þetta er félagslega réttlætið sem þessi ríkisstjórn vill síðan vernda.

Við höfum séð að þessi ríkisstjórn er ríkisstjórn um kyrrstöðu. Það er ákvörðunarfælni í stórum sem smáum málum. Hún hefur m.a. notað þessa kyrrstöðu í að halda þessari ríkisreknu nefnd, verðlagsnefnd búvara, sem er ríkisrekið apparat sem ákvarðar hvað Jón og Gunna, venjuleg heimili, eigi að borga fyrir landbúnaðarafurðir. Nefndin kemur ekkert á óvart, ekki frekar en ríkisstjórnin; hún treystir ekki fjölbreytninni, hún treystir ekki frelsinu, neytendum eða nýsköpun á matvælamarkaði. Við þurfum auðvitað kerfi sem ver bændur og eykur vægi bænda og neytenda, ekki vægi milliliða. Bændur eru ekki að græða á núverandi kerfi, ekki frekar en neytendur.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra sem er með forræði þessarar ríkisreknu nefndar: Hefur þessi nefnd verið kölluð á teppið? Hefur hún verið spurð: Af hverju eruð þið að leggja þessar álögur á heimili landsins? (Forseti hringir.) Þurfa ekki allir að sýna aðhald, ekki bara neytendur og heimilin í landinu heldur líka ríkisstjórnin og hennar ríkisreknu apparöt?