Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 103. fundur,  8. maí 2023.

matvælaverð á Íslandi.

[15:16]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit, sem hefur reyndar gegnt embætti landbúnaðarráðherra án þess að hafa sérstakan áhuga á að snerta á nákvæmlega þessu máli á sínum tíma, þá er verðlagsnefnd búvara sjálfstæð í sínum störfum. Hún er skipuð og starfar samkvæmt ákvæðum búvörulaga þannig að ríkið er ekki að ákveða neitt í þessu. Það er þannig að matvælaráðherra tilnefnir formann nefndarinnar en annars er hún þannig samansett að þar eru Bændasamtökin með sína fulltrúa, Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði og loks Samtök launafólks sem tilnefnir tvo fulltrúa í nefndinni. Við ákvarðanir á afurðaverði, sem verðlagsnefnd hefur með höndum samkvæmt lögum, er aðallega horft til verðlagsgrundvallar kúabús og það er ákveðið reiknilíkan sem fylgir kostnaðarþróun á helstu aðföngum, launum, fjármagnskostnaði og fleiru sem snýr að rekstri kúabús. Hagstofa Íslands útvegar upplýsingar ársfjórðungslega til að uppfæra líkanið. Þarna er í raun og veru um að ræða bæði lögbundið og samningsbundið fyrirkomulag. Ég veit því ekki á hvaða grundvelli hv. þingmaður telur að ráðherra ætti að kalla nefndina á teppið, eins og hv. þingmaður kallar það, þegar um er að ræða nefnd sem er sjálfstæð í sínum störfum. Það væri a.m.k. umhugsunarverð stjórnsýsla, tel ég vera.