Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 103. fundur,  8. maí 2023.

matvælaverð á Íslandi.

[15:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Já, þar höfum við það. Nefndin er sem sagt bara upp á punt. Ríkisstjórnin á ekki að skipta sér af henni, alveg eins og ríkisstjórnin er ekkert að skipta sér af einkafyrirtækjum eða bönkum af því að þetta eru allt saman sjálfstæðir aðilar. Það má aldrei kalla þessa aðila á teppið. Hvers konar er þetta? Við erum að sjá þetta hafa áhrif á verðbólgu og áhrif á verð á matarkörfunni fyrir heimilin í landinu og ríkisstjórnin skilar bara auðu. Það er ekki að það komi á óvart en hún kallar ekki einu sinni þetta fólk í nefndinni á teppið. Og vel að merkja, já, ég skipaði m.a. Þórólf Matthíasson. Það varð allt brjálað þegar hann fór inn í verðlagsnefnd búvara. Ég skipaði líka, m.a. til þess að stokka upp í nefndinni, forsvarsmenn frá Viðskiptaráði og það varð líka allt brjálað. Allt kerfið ætlaði um koll að keyra. Því miður entist mér ekki tími til að stokka upp í þessu en fyrir vikið hef ég lagt fram ár eftir ár frumvarp um að leggja niður verðlagsnefnd búvara og auka samkeppni á markaði fyrir bændur og fyrir neytendur, ekki fyrir milliliðina, (Forseti hringir.) ekki fyrir ríkisstjórnina og hennar helstu hagsmunaaðilar. Þetta er ekki boðlegt, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin í hverju málinu á fætur öðru, (Forseti hringir.) þar sem hún getur haft áhrif á verðbólgu og verðbólgumælingar til heimilanna, þá skilar hún auðu. Enn og aftur: Auðu, auðu, auðu.