Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 103. fundur,  8. maí 2023.

matvælaverð á Íslandi.

[15:19]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður veit þá hefur rekstrarkostnaður í landbúnaði hækkað undanfarin ár. Mjólkurvinnsla hefur hækkað líkt og í öðrum atvinnugreinum og verðlagsnefnd tekur ákvörðun um það hvort gera skuli verðbreytingar þegar reiknilíkönin eru uppfærð. Það hefur verið ákveðið í þessu tilviki að standa með þessum rekstrarforsendum bænda, bænda sem eru nú ekki ofaldir af sinni afkomu og við vitum að það er sérstakt áhyggjuefni og sérstakt umhugsunarefni hversu snúið það er að draga fram lífið og ná endum saman þegar fólk stundar búskap. (Gripið fram í.) Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ódýrir frasar af því tagi sem hv. þingmaður viðhefur hér um einhvern ríkisrekstur o.s.frv., eiga bara ekki heima í svo alvarlegri umræðu sem lýtur að því að bændur geti lifað af sinni vinnu (Forseti hringir.) og að við horfumst í augu við það fyrirkomulag sem hér er (Forseti hringir.) til að þeir geti komist eins nálægt því og nokkurs er kostur.