131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Þekkingarsetur á Egilsstöðum.

687. mál
[14:20]

Fyrirspyrjandi (Katrín Ásgrímsdóttir) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir hennar góðu svör og áhuga hennar á þessu máli. Ég fagna því eins og aðrir sem hér hafa tekið til máls að ákveðið hafi verið að skipa þennan starfshóp og að honum hafi verið settur sá tímarammi að niðurstaða þessa hóps eigi að koma fram fyrir júní. Það er mikilvægt að þetta gangi hratt fyrir sig. Margir bíða eftir því að þetta mál komist áfram.

Ég er þeirrar skoðunar að stofnun þessa þekkingarseturs og áframhaldandi uppbygging háskólasetursins fyrir austan sé eitthvert merkasta mál sem er í gangi þar á svæðinu þótt margt merkilegt sé þar í gangi. Það er rétt að minna á, eins og fram kom í ræðu menntamálaráðherra, að ekki er enn búið að tryggja fjármagn í verkefnið. Ég minni hv. þingmenn og menntamálaráðherra á það og hvet þá til að fylgja því eftir.

Ég minni líka á það að þetta mál nær ekki bara yfir Norðausturkjördæmið, heldur teygir það sig í Suðurkjördæmið þar sem þekkingarsetur á Höfn er inni í þessu. Það ætti því að vera í höndum margra þingmanna auk ráðuneytisins. Fyrir utan þau ráðuneyti önnur sem koma að þessu máli eins og hæstv. menntamálaráðherra benti á þurfa líka iðnaðarráðherra og landbúnaðarráðherra að taka saman höndum með öðrum í þessu máli.