132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Starfsáætlun þingsins.

[12:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þá gagnrýni sem ég hef sett fram og aðrir þingmenn einnig, að hér skuli ekki í dag vera á dagskrá þingsins fyrirspurnir til ráðherra. Við þessa umræðu um störf þingsins og um fundarstjórn forseta hefur verið vísað í langar ræður og stuttar, og þar á meðal í ræðu sem ég flutti inn í morgunsárið fyrir páska. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að vekja athygli á þeim kringumstæðum sem þá voru uppi og eru að hluta til skýrandi í þessu efni.

Síðan vil ég segja hitt gagnvart málatilbúnaði hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um að stjórnarandstaðan stundi málþóf í þessu máli. Það er af og frá. Vissulega hafa verið haldnar langar ræður en þær hafa verið efnisríkar, innihaldsríkar þar sem menn hafa m.a. fjallað um stjórnarfyrirkomulag þjóðarútvarpsstöðva á Norðurlöndunum. Í málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar hefur m.a. verið vísað í þetta. Það hefur verið farið yfir stöðuna hjá öðrum útvarpsstöðvum og skýrslugerðir í því efni. Ég vísa þar t.d. í tiltölulega nýútkomna skýrslu frá breska útvarpinu, BBC. Þá hefur verið farið rækilega og ítarlega yfir réttindamál starfsmanna. Er þetta málþóf? Er það málþóf að tala um hvernig eigi að fjármagna Ríkisútvarpið, hvort heppilegt sé að taka upp nefskatt, svo að dæmi sé tekið? Þar er vísað í málflutning ríkisskattstjóra svo að dæmi sé tekið. Að sjálfsögðu er þetta ekki málþóf, þetta er málefnaleg umræða sem skiptir máli.

En hvernig hefur ríkisstjórnin hagað sér og málsvarar hennar? Þar hefur einfaldlega verið staðhæft að það að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi sé gott. Punktur. Nánast ekkert annað. Gott rekstrarform, segja menn. Punktur. Síðan þegar óskað er svara og rökstuðnings fyrir þeirri afstöðu hefur staðið á henni. Ég hef grun um að menn vilji ekki efna til nokkurrar umræðu um málefnaleg rök í þessu máli. Þau hafa verið sett fram, hæstv. forseti, af hálfu stjórnarandstöðunnar á skýran, markvissan og skipulegan hátt og ég vísa því til föðurhúsanna að tala um slíkan málflutning sem málþóf. Það er rangt. Það stenst einfaldlega ekki.