138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að lesa málsgrein úr ræðu minni, úr því að ég flutti hér skrifaða ræðu, til að rifja það upp fyrir hæstv. utanríkisráðherra sem ég sagði um einkavæðinguna.

Ég sagði þar:

„Þetta sýnir okkur að nauðsynlegt hefði verið að gera ríkari kröfur um dreifingu eignaraðildar. Því miður féllu menn frá slíkum kröfum við einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka. Það voru mistök. En það hefði þó ekki breytt stöðunni vegna Glitnis eða Íslandsbanka sem hafði orðið til mun fyrr við sameiningu og sölu. Krafan um dreifingu eignarhalds hefði þó stuðlað að minni áhættu eins og við sjáum.“

Rökin sem ég flutti voru m.a. þau að það vekur athygli við lestur þessarar skýrslu að sjá að um leið og komnir eru nýir eigendur að bönkunum, eins og t.d. í Glitni eða Landsbankanum eða Kaupþingi, gerist það einfaldlega að upp rjúka útlánin til þeirra sem voru að kaupa bankana. Þeir notuðu þessa banka eins og sparibauka fyrir sjálfa sig og sinn eigin rekstur. Ég get varla talað mikið skýrar en þetta.

Af því að hv. þingmaður segist vera stoltur af því að sér sé líkt við gamlar konur er ég nokkuð viss um að gamlar konur hefðu tekið eftir þessu. [Hlátur í þingsal.] Hv. þingmaður verður þess vegna að gera betur ef hann vill að ég haldi áfram að líkja honum við gamlar konur, sem ég ber mikla virðingu fyrir.

Hitt er það, af því að við höfum báðir dálitla reynslu hér úr þingsölum og munum það alveg hvernig þessar umræður fóru fram, að það er alveg rétt að á vissan hátt var samhljómur fyrir þeirri kröfu á sínum tíma að dreifð eignaraðild yrði við sölu bankanna og það var reyndar gert við upphaflega sölu Búnaðarbankans og Landsbankans. Tugir þúsunda manna skráðu sig fyrir eignaraðild í þeim bönkum og það var fínt.

En það voru líka ýmsir aðrir sem sproksettu þetta mjög og sögðu: Þetta mun engin áhrif hafa því að að lokum mun það verða þannig að menn fara að selja þessi bréf og þetta mun safnast aftur saman. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við eigum að tryggja dreifða eignaraðild.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Hvaða dreifing á eignaraðild er til staðar í þeim bönkum sem ríkissjóður hefur núna afsalað sér til lánardrottna, Arion banka (Forseti hringir.) og Íslandsbanka? Getur hæstv. utanríkisráðherra upplýst okkur um hvernig var staðið að einkavæðingunni (Forseti hringir.) í þetta skipti? Lærðu menn af reynslunni?