138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[14:55]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni fyrir andsvarið. Hann spyr að því hvort umræðan sé tímabær. Hér hefur aðeins í upphafi þingfundar farið fram umræða um það að hve miklu leyti menn hafa haft tækifæri til að kynna sér efni skýrslunnar til hlítar. Það kom fram í máli mínu einnig að það væri skammur tími liðinn frá því að hún kom fram og af þeim sökum hefði aðeins verið hægt að tæpa á því helsta, við getum sagt samantekt eða ábendingum nefndarinnar í einstökum köflum, án þess að fara í kjölinn á efni þessarar yfirgripsmiklu skýrslu.

Höfum það jafnframt þá í huga að þetta er aðeins upphafið að umræðu og vinnu Alþingis í þessu máli. Skýrslan mun núna fara til meðhöndlunar í sérstakri þingnefnd sem hefur tíma og tækifæri til að skoða hana í kjölinn. Þetta mál á eftir að koma aftur inn í sali Alþingis þegar þingnefndin hefur lokið sinni vinnu og vonandi verða allir þingmenn þá búnir að plægja í gegnum skýrsluna til hlítar þegar þar að kemur. Það er því eðlilegt að menn séu á þessum tímapunkti fyrst og fremst að bregðast við meginniðurstöðum, meginsjónarmiðum og ábendingum sem koma fram í skýrslunni.

Hvernig eiga stjórnmálaflokkar að axla ábyrgð? Ég var að reyna að vekja máls á því í máli mínu að það sem hefur farið úrskeiðis er auðvitað starfsemi bankanna sjálfra. Það eru þær reglur og sú lagaumgjörð sem um þá starfsemi var sett og hvernig menn meðhöndluðu það og það var pólitísk stefnumótun að sjálfsögðu líka. Ég tel að menn eigi að draga lærdóm af niðurstöðum skýrslunnar hvað þetta snertir, menn eigi að fara í sjálfsskoðun, sjálfsgagnrýni, ekki sjálfsafneitun, menn eigi að skoða: Hvar gerðum við rangt? Og að sjálfsögðu að taka þá ákvarðanir um, ég vil leyfa mér að segja nýja stefnumótun, nýjar áherslur með hliðsjón af því sem kemur fram í skýrslunni.