138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði einmitt að spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki lært af þessari skýrslu. Nú veit ég náttúrlega að hann er ekki búinn að lesa hana alla frekar en ég en er ekki ýmislegt í henni sem þarf að nota til að draga lærdóm af? Það er búið að einkavæða þessa tvo banka. Ríkið átti þá sem hlutafélög og það seldi þá til kröfuhafanna, það var hluti af ákveðnu samkomulagi og menn komust ekki hjá því. Þetta voru ríkisfyrirtæki, sem sagt í eigu ríkisins, og eru núna ekki lengur ríkisfyrirtæki. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Telur hann að í þessari skýrslu sé eitthvað sem við þurfum að draga lærdóm af til að við lendum ekki í nákvæmlega sömu stöðu gagnvart t.d. nýju Icesave, gagnvart krosseignarhaldi, raðeignarhaldi o.s.frv.?

Varðandi kattasmölunina er ég ekki viss um að hv. þingmaður sé reynslulaus. Ég minni á atkvæðagreiðsluna um ESB. Ráðherrar fluttu ræður: Nei, nei, nei, og svo sögðu þeir já. Hvað er það annað en flokksagi? Ég minni líka á Icesave, heldur betur, þannig að hv. þingmaður hefur mikla reynslu af kattasmölun.