138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:29]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aftur verð ég að lýsa furðu minni á spurningu þingmannsins því ég var einmitt óþreytandi við það, kannski fyrst og fremst sem háskólakennari, að gagnrýna stöðguleika fjármálakerfisins eða skort á honum. Það er því augljóst, og ætti að reynast auðvelt að staðreyna það hverjum sem vill skoða ummæli mín frá þessum árum, að því fer fjarri að þetta hafi með einhverjum skilningi farið fram hjá mér.

Ég get svo sem alveg tekið undir að það var um margt óheppilegt að fjársveltir íslenskir háskólar, og þá sérstaklega hinir opinberu háskólar, skuli hafa þurft að leita til einkageirans með fé. Að vísu getur slík fjármögnun verið eðlileg en hún er óeðlileg ef hún verður til þess að háskólamenn eða háskólastofnanir geta ekki fjallað á réttan hátt um mál. Hvort svo var eða ekki þori ég hins vegar ekkert að fullyrða um.