138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir ágæta ræðu. Hún var reyndar dálítil fortíðarræða og að einhverju leyti verið að búa til söguna af því að hún hentaði ekki eins og hún var.

Hún leggur t.d. til að stjórnskipan verði breytt og ég er mjög ánægður með það, ég vil að ríkisstjórnin sé fjölskipað stjórnvald.

Hins vegar talaði hún um og gerði lítið úr samstarfsflokkum Sjálfstæðisflokksins í 18 ár, eins og hann hafi bara vafið þessu fólki um fingur sér. Ég er nú ekki aldeilis sammála því og vil benda á að það sem hv. þingmaður talaði um sem skattalækkun hafa aðrir talað um sem skattahækkun, m.a.s. sama fólkið, vegna þess að tekjur ríkissjóðs stórjukust á hverju einasta ári í þessu skattalækkunarferli vegna þess að skattstofnarnir stækkuðu svo mikið. Þetta var því skattahækkun í þeim skilningi að atvinnulífið og heimilin í landinu greiddu meiri og hærri skatta og ríkið gat borgað niður skuldir sínar. Þetta voru ekki skattalækkanir, þetta voru skattahækkanir, ég vil leiðrétta hv. þingmann með það.

Síðan vil ég benda á það að á þessum ógurlega tíma þegar Sjálfstæðisflokkurinn vafði öðrum flokkum um fingur sér eins og þeir væru einskis virði jókst velferðarkerfið um 70% að raungildi. Það voru kannski mistök Sjálfstæðisflokksins, ég viðurkenni það, að hafa aukið velferðarkerfið og hag aldraðra og öryrkja og laun kennara og annarra mjög mikið. Það hefði kannski mátt fara dálítið varlegar í það, en þetta var gert.

Laun landsmanna hækkuðu um 60–70% að raungildi á þessum tíma þannig að ef Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á þessu aleinn þá verð ég mjög stoltur af starfi hans.