139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:54]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki ganga í Evrópusambandið svo ég svari síðustu spurningu hv. þingmanns sem hann varpaði fram til mín, reyndar í töluvert löngu máli en skýru.

Ég er heldur ekki hættur baráttu minni til þess að verja eigur fjármagnseigenda eða verja eigur fólks. Það vil ég gera en lít hins vegar þannig á að íslenskir vinstri menn hafi gengið í lið með okkur hægri mönnum, gengið m.a. í lið með hv. þm. Pétri H. Blöndal í baráttu hans fyrir þessu máli. Hún snýst um það að berjast fyrir hagsmunum fjármagnseigenda. Sú var tíðin, eins og ég sagði í ræðu minni, að í þessum ræðustól töluðu íslenskir vinstri menn öðruvísi um íslenska fjármagnseigendur en þeir gera núna.

Hvað er best að gera? Ég get alveg svarað hv. þingmanni með því að það er a.m.k. ekki rétt að samþykkja þetta frumvarp, einfaldlega vegna þess að það gengur ekki upp. Í fyrsta lagi ber okkur engin skylda til að gera það vegna þess að tilskipunin sem frumvarpið byggir á hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn og þar af leiðandi erum við ekki í neinum spreng með að klára þetta frumvarp. En við eigum alls ekki að samþykkja það vegna þess að það veitir ekki þá vernd sem að er stefnt. Frumvarpið er ekkert annað en sýndarmennska, þetta er fölsk vernd og blekking gagnvart innstæðueigendum sem hugsanlega munu líta til þessa frumvarps, verði það að lögum, í þeirri trú að innstæður þeirra séu tryggðar. Þegar áfallið verður kemur í ljós að svo er ekki (Forseti hringir.) þannig að það er alveg ljóst að hvað sem við gerum eigum við ekki að gera þetta (Forseti hringir.) sem hér er til umræðu.