140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir að lýsa sýn sinni á málið. Hann kom aðeins inn á það í ræðu sinni um þessa snöggu samsuðu, þ.e. að gjörbreyta stjórnarskránni og skrifa hana upp á nýtt — af því að það hafa verið rifjaðar upp einhverjar kosningaauglýsingar í fjölmiðlum í dag vil ég nefna að það var sannarlega skoðun okkar framsóknarmanna að í kjölfarið á því hruni sem varð og öldurótinu í samfélaginu að skynsamlegt væri að taka málið úr þessum farvegi og kjósa til stjórnlagaþings. Við vorum hins vegar með þær hugmyndir að fólk ætti að fá nægan tíma til þess. Reyndar held ég að talað hafi verið um sex mánuði eða jafnvel eitt ár.

Stjórnlagaráðið sem skipað var fékk engan þann tíma og því varla hægt að ætlast til þess að þaðan hafi komið nægilega íhugað plagg. Margt er þar áhugavert en ég tek undir það sem hefur komið fram hjá hv. þingmanni sem og öðrum að þar er líka ýmislegt sem ég tel alls ekki búið að íhuga nóg. Ég er því sammála hv. þingmanni um að það þurfi einhvern veginn að höggva á þennan hnút og taka málið þá út úr því ferli sem það er í núna.

Ég hef ekki sagst vera á móti því að þjóðin væri spurð einhverra lykilspurninga. Ég er bara ekki viss um að þessar fimm eða sex spurningar sem meiri hlutinn er með séu lykilspurningar. Það vantar til að mynda spurningar um valdsvið forsetans. Það vantar spurningar um samninga við önnur ríki, fullveldisafsal og annað í þeim dúr sem kom til dæmis ekki fram á þjóðfundinum. Ég hefði talið eðlilegt að við færum í að skoða það betur. Það væri áhugavert að þingmaðurinn gæti þá velt því fyrir sér í seinna svari við mig nákvæmlega hvernig þetta gerðist eða hvort við eigum að leyfa (Forseti hringir.) þessum spurningum að fara út og spyrja þjóðina þótt það sé mjög umdeilanlegt hvað við fáum út úr því og hvernig á að dæma stuðning við einstök mál.