141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gerði athugasemdir við það að í umræðunni um náttúruverndarlögin í gær hefði ég gert athugasemdir við að enn á ný væri verið að boða til útgjalda sem ekki væri gert ráð fyrir í fjárlögum ríkisins. Ég hef gert það að umtalsefni á undanförnum dögum og reyndar undanförnum mánuðum og árum hversu óábyrg ríkisfjármálin eru og hvernig umgengnin um þau er.

Ég hef minnt á að ríkisstjórnin hefur ákveðna stefnu í ríkisfjármálum sem heitir ríkisfjármálastefna. Frumvörpin sem eru hér lögð fram í bunkum ganga gegn stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Það kemur oft og ítrekað fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að þau auknu útgjöld sem gert er ráð fyrir í viðkomandi frumvörpum gangi gegn stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálastefnunni. Það er ekki flóknara en það.

Skýrasta dæmið um þetta sem hefur blasað við okkur undanfarna daga er þegar hæstv. menntamálaráðherra tók skóflustungu að Húsi íslenskra fræða. Förum aðeins yfir það. Þar er gert ráð fyrir heildarkostnaði upp á 3,4 milljarða kr. sem átti að greiðast á þremur árum. Í upphaflegum tillögum frá menntamálaráðuneytinu var gert ráð fyrir að greiddar yrðu 800 millj. kr. úr ríkissjóði fyrir framkvæmdina. (Gripið fram í.)

Hvað gerðist síðan í meðförum hv. fjárlaganefndar og með tillögum frá menntamálaráðuneytinu? Jú, því var breytt í það að ríkissjóður muni einungis á árinu 2013 greiða 150 millj. kr. af þeim 3,4 milljörðum á næstu þremur árum og happdrættið látið borga megnið af sínum hlut þar inn í. Síðan stendur það eftir fyrir þá sem hér taka við að á næstu tveimur árum, þ.e. 2014 og 2015, þarf að standa skil á 2.250 millj. kr. Þetta kalla ég óvarlega gengið um (Forseti hringir.) ríkisfjármálin, frú forseti. (Gripið fram í: Hvað kostaði hrunið?)