141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og fagna því í sjálfu sér að menn séu að reyna að nálgast þennan hóp, sem er búið að taka langan tíma. Það er flókið úrlausnarefni að reyna að finna lausnir til handa heimilunum og hér er komin ein varðandi lánsveðin. Ég geri ráð fyrir að þetta sé plan C vegna þess að hin leiðin, þ.e. að semja við kröfuhafana, bankana um að fara aðrar leiðir hefur ekki gengið upp og langar mig að fá staðfestingu á því hjá hæstv. ráðherra.

Ég hef áhyggjur af öðrum hóp, ábyrgðarmönnum, og langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort staða þeirra hafi eitthvað verið skoðuð í herbúðum ríkisstjórnarinnar. Ábyrgðarmenn eru á lánum hjá einstaklingum sem farið hafa í gegnum vélina hjá umboðsmanni skuldara og fengið lán sín niðurfelld. Þá tekur við það ferli að ábyrgðarmennirnir eru krafðir um greiðslu á þeim lánum þar sem skuldarinn sjálfur er laus allra mála. Hefur þessi hlið verið skoðuð og er aðgerða að vænta af hálfu ríkisstjórnarinnar?