141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Svarið er sem sagt það að stofna á nefnd um að breyta hugsanlega lögum um Íbúðalánasjóð. Hvað á það að fela í sér? Hver er pólitísk stefna og sýn framsóknarmanna á framtíð Íbúðalánasjóðs? Hvert er innihaldið? Eða er ekkert innihald í þessum yfirlýsingum frekar en það er innihald eða rökstuðningur fyrir því hvernig banna á verðtryggingu? Hv. þingmaður leiddi starf þverpólitískrar nefndar sem var skipuð hér um verðtrygginguna. Hún hafði það hlutverk, að því er mér skilst, að fara yfir það með hvaða hætti draga ætti úr verðtryggingunni og hugsanlega afnema hana. Það skilaði engu.

Nú heldur Framsóknarflokkurinn uppi þeim málflutningi að það eigi að bjarga heimilunum með því að banna verðtryggingu. Hvernig á að gera það? Með því að stofna nefnd. Það er ekkert á bak við það, engin rök. Ég hef áhyggjur af því á hvaða leið framsóknarmenn eru. Þeir segja: Við ætlum að gera hitt og þetta með því að stofna nefnd, en segja ekkert hvað það felur í sér. Hver er stefnan varðandi Íbúðalánasjóð? Hvaða breytingar er Framsóknarflokkurinn tilbúinn að fara í? Ég hef ekki heyrt það hingað til að það sé nokkur skapaður hlutur.