141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[12:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég finn eilítið til með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þessa dagana. Við könnumst svo sem við hvað það getur verið erfitt þegar ekki gengur nógu vel hjá eigin flokki og þá er kannski ástæða til að hnýta í aðra flokka.

Það sem ég vildi hins vegar fyrst og fremst spyrja hv. þingmann um er hver sé eiginlega munurinn á afstöðu hennar og afstöðu ríkisstjórnarflokkanna í hinum sértæku aðgerðum sem hafa ítrekað verið lagðar fram. Í hvaða tilvikum hefur hv. þingmaður ekki verið sammála þegar komið hefur að greiðsluaðlögun, sértæku skuldaaðlöguninni eða varðandi vaxtabótakerfið?

Síðan mundi ég vilja spyrja hv. þingmann: Ef eftirsjáin er svo mikil yfir að Framsóknarflokkurinn skyldi hafa neytt Sjálfstæðisflokkinn til ákveðinna aðgerða, hvað var Sjálfstæðisflokkurinn eiginlega að gera frá maí 2007 þangað til hann fór úr ríkisstjórn? Mig minnir að hann hafi verið í ríkisstjórn með Samfylkingunni á þeim tíma. Ég hef að vísu sömu spurningu ef hæstv. ráðherra gæti komið inn á það: Hvað hafa menn eiginlega verið að gera allan þennan tíma? Samfylkingin er til dæmis búin að vera í ríkisstjórn í sex ár hvað varðar að taka á vanda Íbúðalánasjóðs.

Fyrst og fremst vil ég fá að heyra hvað það er nákvæmlega sem hefur aðgreint Sjálfstæðisflokkinn frá þeim tillögum sem hafa komið frá stjórnvöldum, að fara þessa plástraleið í staðinn fyrir að fara í almennar aðgerðir og gera grundvallarbreytingar á kerfinu.