141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[18:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hv. þingmaður nefndi samanburð í lok andsvars síns. Mig langar að biðja hv. þingmann að rifja það upp, ef þingmaðurinn man það, hvernig aðrir háskólar eru staddir og hvernig þeir koma út í þessum samanburði.

Það sem ég vil aðallega tala um er að í áliti fjárlagaskrifstofunnar með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir liðinna ára hafi ekki verið gripið til heildstæðra hagræðingaraðgerða, svo sem sameiningar háskóla, og þannig dregið úr stjórnunarkostnaði og tvíverknaði.“

Ég held að ekki hafi verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti að sameiningar skili sparnaði, það þarf ekki endilega að vera þannig. En það vekur eftirtekt að ekki er minnst á það sem viðurkennt er, eða það hefur þá alla vega farið fram hjá mér, og vel þekkt að háskólana sem hér um ræðir, t.d. Háskólann á Hólum, vantar töluverða fjármuni. Það hefur verið viðurkennt af hálfu ríkisins að ef halda á úti lögbundnum verkefnum þá vatnar mikla fjármuni, en vandamálinu er alltaf ýtt á undan. Er ekki kominn tími til þess að koma með þá fjármuni sem þarf í rekstur þessara skóla? Ef ekki eiga menn bara að tala tala hreint út og segja hvað á að gera, því að það gengur ekki að setja snöruna um hálsinn á þessum stofnunum (Forseti hringir.) þannig að þær geti sig hvergi hreyft.