143. löggjafarþing — 104. fundur,  6. maí 2014.

vátryggingastarfsemi.

584. mál
[14:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka formanni nefndarinnar fyrir kynninguna á málinu. Það er auðvitað vonum seinna að við séum núna árið 2014 að innleiða atriði úr tilskipunum Evrópusambandsins frá árinu 2001 og ástæða til að þakka hv. þm. Frosta Sigurjónssyni framlag hans hér til aðlögunarinnar.

Þetta mál ber hins vegar þannig að að það á að verða að lögum í dag og fara í gegnum þrjár umræður ef kostur er og umfjöllun nefndarinnar gefur færi á því, ef ég hef skilið málið rétt. Maður spyr auðvitað alltaf við slík tilefni hvers vegna það þarf að ganga svo hratt fyrir sig og hvaða efni standa til þess. Hér er væntanlega verið að taka ákveðinn rétt frá stærri kröfuhöfum í viðkomandi félög og færa í hendur slitastjórnar og þeir koma þá væntanlega ekki að athugasemdum við umfjöllun málsins vegna hinar hröðu málsmeðferðar hér í þinginu. Hvaða sérstöku aðstæður eru það sem gera það að verkum að þetta verður að afgreiða í dag?

Í öðru lagi eru þarna sett mörk á það hversu skilastjórnir geti setið lengi, þrjú ár með að hámarki tveggja ára framlengingu. Sér formaður efnahags- og viðskiptanefndar ástæðu til þess að setja sams konar ákvæði um skilastjórnir föllnu bankanna? Vátryggingafélögin eru jú hér í raun að fara inn í svipað fyrirkomulag og er um uppgjör þrotabúa föllnu bankanna.