144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[17:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð því miður að ítreka spurningu mína til formanna þingflokka stjórnarflokkanna. Ég hélt eitt augnablik að hv. þm. Þórunn Egilsdóttir væri að koma í ræðustól til að svara þeim spurningum sem ég lagði hér fyrir, um hvað samgönguáætlun liði. Er samgönguáætlun föst í þingflokki Framsóknarflokksins vegna þess að í henni er ekki neitt? Samgönguáætlunin er að gera ekki neitt. Eða sætta þingmenn Framsóknarflokksins sig við áætlunina eins og hún liggur fyrir? Í raun og veru hefur hún ekkert hér að gera til umræðu, en af því menn eru að tala um að taka þingsályktunartillögu um rammaáætlun til seinni umræðu á morgun þá vek ég athygli á því að þessar tvær þingsályktunartillögur sem ég spurði um hafa ekki verið teknar til fyrri umræðu. Við höfum verið að keppast hér við að setja þau mál á dagskrá til að koma þeim til nefnda. Ég vek bara athygli á því að nefndirnar eiga eftir vinna þessar tvær þingsályktunartillögur (Forseti hringir.) þegar þær loksins koma og ef þær koma. Ég ítreka spurningu mína til (Forseti hringir.) formanna þingflokkanna um þessar tvær áætlanir sem hafa ekki verið lagðar fram, hvað þá ræddar.