144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er sennilega helsta ástæðan sem hægt er að finna í greinargerð frumvarpsins að þar sé hægt að spara 50–60 milljónir. En er það sparnaður? Ég er ekki viss um það. Hérna er um að ræða mjög flókið ferli þegar kemur að því bæði að halda utan um og síðan afsetja þessa miklu hluti. Ef það á að fara inn í fjármálaráðuneytið, Ríkiskaup, er ég ansi hræddur um að við svo vandasöm verkefni muni þessar stofnanir þurfa að ráða eða kaupa sér mikla utanaðkomandi sérfræðiþjónustu og það mun reynast þeim mjög dýrt. Ég gef mér það því að mjög sé á huldu hvort þessi sparnaður náist nokkuð.

Hins vegar finnst mér það engu máli skipta, ég vil segja það alveg eins og er, þótt menn leyfi sér þann munað þegar um er að ræða svona stórar eignir að jafnvel, eins og hv. þingmaður stakk upp á, bæta í starfsafla stofnunarinnar. Ég er þeirrar skoðunar. Hv. þingmaður spurði mig hvaða leið ætti að fara. Ég held að það eigi að gera eins og Norðmenn, sem lentu í djúpri bankakreppu 1991. Þeir settu upp svona stofnun og ætluðu að hafa hana í sex til átta ár, töldu að þá yrði hún búin að afsetja allar eigur sínar, en það tók lengri tíma og hún lifði í 13 ár. Þegar því lauk blasti við að þeir höfðu endurheimt allt það sem þeir höfðu lagt til bankanna og með verulega góðri ávöxtun. Ég er því sannfærður um þetta, sérstaklega miðað við það hvernig Bankasýslan hefur unnið, hún hefur nú þegar margskilað þeim peningum sem í hana hafa farið og á örugglega eftir að gera það í framtíðinni.

Til þess að svara spurningu hv. þingmanns: Ég tel að það eigi að hafa Bankasýsluna þangað til við höfum lokið þessu verkefni. Það gæti vel tekið fimm ár í viðbót, kannski lengri tíma.