144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú þegar komið er að lokum þessarar umræðu vildi ég fara örstutt yfir nokkur atriði sem mér finnst standa hér eftir.

Í fyrsta lagi ítreka ég það sem fyrr hefur komið fram í umræðunni að ég geri ágreining um vísan frumvarpsins til fjárlaganefndar og tek undir þá kröfu sem hér hefur komið fram að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar. Fyrir því eru engin efnisrök að breyta með þessum hætti umfjölluninni um þessa stofnun og starfsemi hennar í þinginu.

Í annan stað eru skallarnir í frumvarpinu orðnir sífellt ljósari. Engin umfjöllun er um það í greinargerð með frumvarpinu að bankasýslur eru um alla Evrópu og engar áætlanir uppi um að leggja þær af. Engin umfjöllun er um það. Í annan stað er hvergi fjallað um hvernig tryggð verði armslengd eftir breytinguna. Sagt er að sömu starfsmenn fjármálaráðuneytisins eigi ekki að hafa með höndum eftirlit á fjármálamarkaði og að fara með hlutinn í bönkunum. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að það verður enginn sparnaður af breytingunni því að nú þegar eru tveir starfsmenn að sinna þessu og þeir geta ekki verið færri en tveir í fjármálaráðuneytinu að breytingunni orðinni. Það er hins vegar ekki orð um það á hvaða forsendum ákvarðanir verði teknar á hluthafafundum í bönkum þegar farið er með eignarhlut ríkisins héðan í frá. Það er þeim mun meiri þörf fyrir armslengdina nú þegar haft er í huga að búið er að fella til fjármálaráðuneytisins reglunarvaldið og eftirlitsvaldið með fjármálakerfinu. Þegar Bankasýslan var sett á fót var það gert þrátt fyrir að þá væri reglunarvaldið í viðskiptaráðuneytinu og eigendahlutverkið í fjármálaráðuneytinu, þannig að það var verið að reyna að vinda enn frekar ofan af tengslum stjórnmála og framkvæmdar með því að búa til sjálfstæða bankasýslu. Að leggja hana niður og ætla að láta fjármálaráðuneytið vera allsherjaryfirdrottnara bankakerfisins, jafnt reglunaraðila og eigenda, er gríðarleg afturför og afturhvarf til þess versta sem við sáum hér á fyrri áratugum og býður heim samkrulli stjórnmála og fjármála af áður óþekktri stærðargráðu.

Einnig er athyglisvert að ekkert er fjallað um það í frumvarpinu hvaða forsendur eigi að leggja til grundvallar við meðferð eignarhlutans, hvernig armslengd verði tryggð innan ráðuneytisins og það er ekki heldur neitt lagt til grundvallar á hvaða sjónarmið á að byggja við ákvarðanatöku. Nú liggur það fyrir að Bankasýslan til dæmis hefur í tvígang greitt atkvæði gegn hækkun stjórnarlauna. Hún hefur aldrei greitt atkvæði með kaupaukum. Hæstv. fjármálaráðherra kom um daginn með frumvarp inn í þingið um að opna algerlega upp á gátt um kaupaukaheimildir í fjármálakerfinu, meira að segja þannig að starfsmenn eftirlitseininga í fjármálakerfinu eigi að geta fengið kaupauka. Hvernig mun hæstv. fjármálaráðherra beita hinu nýfengna valdi sínu á næsta hluthafafundi? Mun hann styðja beitingu kaupauka hafandi sjálfur staðið fyrir frumvarpi, ef við gefum okkur það nú að þingið muni samþykkja þetta vanhugsaða frumvarp hans, hvernig mun hann þá beita valdi sínu sem fulltrúi almannahagsmuna á hinn kantinn þegar kemur að ákvörðunum á aðalfundum fyrirtækjanna? Hvernig ætlar sá ráðherra sem nú er orðinn, samkvæmt lögum sem við samþykktum hér í fyrra, formaður fjármálastöðugleikaráðs að þrýsta á um meiri arðgreiðslur úr bönkum? Getur það hlutverk farið saman, að vera annars vegar formaður fjármálastöðugleikaráðs og vilja tryggja gjaldfærni fjármálakerfisins og hins vegar að kalla eftir auknum arðgreiðslum? Það sér hver maður að þegar horft er á málin með þeim hætti þá er enginn ávinningur að þessu frumvarpi, það verður ekki hægt að fækka starfsfólki, það verður enginn sparnaður, skilvirkni mun minnka í kerfinu. Það er sérstakur ávinningur að örstofnun af þessum toga sem hefur ekki fleiri starfsmenn en þetta skuli hafa náð að gegna hlutverki sínu jafn vel og raun ber vitni. Það er algerlega óhugsað að öllu leyti af hálfu hæstv. ráðherra hvaða kerfi eigi þarna að koma í staðinn, hvernig armslengd milli hins pólitíska valds og fjármálakerfisins verður tryggð og þar sitjum við með óleyst vandamál og þess vegna er algerlega fráleitt að samþykkja frumvarpið eins og það er hér lagt fram.