144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

638. mál
[20:42]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Flutningsmenn tillögunnar ásamt mér eru hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir og Jón Þór Ólafsson.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd Alþingis að láta undirbúa lagafrumvarp um sérstaka stofnun á vegum Alþingis sem hafi sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Við undirbúning frumvarpsins verði meðal annars litið til eftirfarandi verkefna slíkrar stofnunar:

a. að hefja athugun að eigin frumkvæði,

b. að taka við kærum og kvörtunum einstaklinga sem telja lögreglu hafa brotið á réttindum sínum,

c. að rannsaka meint brot lögreglumanna í starfi,

d. að rannsaka tilkynningar innan úr lögregluliðum um einelti og kynferðislega áreitni,

e. að rannsaka upplýsingar frá nafnlausum afhjúpendum innan lögreglu eða stjórnsýslu.

Þá verði við undirbúning frumvarpsins metið hvort stofnunin geti einnig farið með ákæruvald í slíkum eftirlitsmálum. Í frumvarpinu verði kveðið sérstaklega á um sjálfstæði stofnunarinnar.

Forsætisnefnd leggi frumvarpið fram til kynningar ásamt kostnaðargreiningu eigi síðar en á vorþingi 2016.“

Í tillögunni er gert ráð fyrir að frumvarpið kveði á um fjölþætt hlutverk stofnunarinnar. Í fyrsta lagi almennt eftirlit með starfsemi lögreglunnar. Í því felst til dæmis eftirlit með því að verklagsreglur séu til og aðgengilegar fyrir lögreglumenn, eftirlit með beitingu valdheimilda lögreglunnar, framkvæmd húsleitar, símhlustun, handtökum, vistun handtekinna manna og eftirlit með þjónustu lögreglunnar við almenning.

Í öðru lagi könnun mála vegna kvartana frá almenningi, félagasamtökum, einstaklingum eða lögaðilum. Oft koma upp mál sem tengjast framkvæmd lögreglustarfa sem benda til þess að eitthvað hefði mátt betur fara án þess þó að beinlínis liggi fyrir grunur um refsivert brot af hálfu lögreglu. Stofnunin gæti sinnt kvörtunum af því tagi og haft valdheimildir til að kalla eftir skýringum og gögnum frá lögregluembættum.

Í þriðja lagi rannsókn minni háttar brota lögreglumanna. Hér er átt við bæði meint brot lögreglumanna gegn starfsskyldum sínum og meint brot þeirra gegn almenningi og einstaklingum.

Í fjórða lagi rannsóknir á meiri háttar brotum lögreglumanna, hvort sem er í starfi eða utan þess. Hér er átt við þau brot sem fangelsisrefsing eða verulegar fjársektir geta legið við. Sérstök athygli er vakin á því að ólíkt rannsóknum minni háttar brota, sem aðeins eiga að ná til meintra brota meðan á skyldustörfum stendur, er mælt með því að stofnunin rannsaki einnig meiri háttar brot sem grunur leikur á um að lögreglumaður hafi framið utan vinnutíma. Með því væri komið í veg fyrir að lögreglumenn stæðu frammi fyrir því að rannsaka háttsemi stéttarbræðra sinna og stéttarsystra sem gæti valdið því að þeim yrði gerð veruleg fjársekt eða fangelsisrefsing. Einnig væri með því tryggt að slíkar rannsóknir hefðu yfirbragð trúverðugleika umfram það fyrirkomulag sem nú er við lýði.

Í fimmta og síðasta lagi þarf að skoða hvort unnt væri að veita stofnuninni ákæruvald í málum sem undir hana heyra. Það kallar þó á sérstaka skoðun stjórnskipunarlaga með tilliti til þrígreiningar ríkisvaldsins, en markmiðið er að gera ákæruvald í málefnum lögreglu síður tengt lögreglunni.

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess að koma upp sjálfstæðu eftirliti með starfsemi lögreglunnar undanfarin missiri. Ástæðu þess má rekja til opinberar umræðu í tengslum við nokkur mál sem upp hafa komið á síðustu árum og vakið hafa athygli. Má nefna harðræði við handtökur, fyrsta mannslát á Íslandi vegna beitingar lögreglu á skotvopnum, meint brot á reglum um uppflettingar í gagnagrunni lögreglu, framkvæmd hlerana, framkvæmd líkamsleita og skýrslu um skipulag lögreglu við mótmæli á árunum 2008–2011.

Kærur á hendur lögreglumönnum koma oft frá einstaklingum sem hafa á einn eða annan hátt komist í kast við lögin. Hluti þeirra hefur ítrekað komið við sögu lögreglu og mögulega í fleiri en einu lögregluumdæmi. Slíkt kann að leiða til þess að með réttu megi efast um að kærandi njóti sannmælis við rannsóknina. Virkt eftirlit með starfsemi lögreglu er þó ekki einungis borgurunum til hagsbóta heldur einnig þeim sem sinna löggæslustörfum, vegna þess nauðsynlega trausts sem lögreglan þarf að njóta meðal borgaranna til að sinna starfi sínu sem best.

Ekki er heldur hægt að líta fram hjá því að lögreglumenn í landinu eru fáir og samheldnir. Þeir hafa setið saman á skólabekk í Lögregluskólanum, sótt námskeið saman, þeir starfa saman í stéttarfélagi, sem m.a. lætur til sín taka í réttindum lögreglumanna sem grunaðir eru um refsiverð brot. Sömuleiðis standa þeir að alls kyns formlegu og óformlegu félagsstarfi. Þetta kann að valda því að lögreglumaður, sem falið er að rannsaka meint brot lögreglumanns í öðru umdæmi, sé settur í ansi erfiða stöðu. Í fyrsta lagi kann hann að vera tengdur sakborningi í gegnum eitthvert af framangreindum atriðum, í öðru lagi kann hann að vera undir þrýstingi frá stéttarfélagi eða landshlutafélögum lögreglumanna, í þriðja lagi getur hann sjálfur verið kærður fyrir meinta refsiverða háttsemi síðar á starfsævinni og þarf hann þá að sæta því að viðkomandi sakborningur eða vinnufélagar hans og vinir rannsaki það mál. Allt þetta er til þess fallið að gera viðkomandi rannsóknaraðila erfitt um vik við rannsóknina.

Lögreglumenn hafa enn fremur hagsmuni af því að rannsókn á meintum brotum þeirra gagnvart hver öðrum eða kvartanir vegna starfa þeirra séu í höndum aðila sem er ótengdur lögreglunni sjálfri. Því miður hafa á undanförnum árum komið upp mál sem benda til þess að einelti líðist innan einstaka lögregluliða landsins og rannsóknir sýna að hluti lögreglumanna telur sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi. Sérstaklega þarf að gæta að réttaröryggi þeirra og telja flutningsmenn tillögu þessarar að þess sé best gætt með því að sjálfstæð stofnun meðhöndli slík mál. Lögreglumaður sem er lagður í einelti á vinnustað sínum hefur ríka ástæðu til þess að ætla að rannsakandi sem kemur innan úr lögreglunni og tengist lögregluliðinu í gegnum kunningsskap, vináttu eða félagsstörf geti verið hlutdrægur við rannsókn af því tagi. Sömuleiðis getur slíkur trúnaðarbrestur innan stéttarinnar gefið hinum grunaða lögreglumanni ástæðu til efasemda um hlutlægni þess sem framkvæmdi rannsóknina eða hluta af henni. Slíkum efasemdum mætti eyða með því að tryggja að algjörlega sjálfstæður aðili utan lögreglunnar annaðist slíkar rannsóknir.

Virðulegi forseti. Vegna náinna tengsla ríkissaksóknara við aðra handhafa ákæruvalds má telja óheppilegt að ríkissaksóknari fari með eftirlit með lögreglu. Sjálfstæð eftirlitsstofnun með starfsemi lögreglunnar getur að sama skapi ekki með góðu móti heyrt undir ráðherra eða aðra handhafa framkvæmdarvalds. Það stafar fyrst og fremst af því að sá ráðherra sem fer með lögreglumálefni er um leið æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu.

Með tillögu þessari er því lagt til að forsætisnefnd verði falið að undirbúa lagafrumvarp um sérstaka eftirlitsstofnun á vegum Alþingis, enda geri stjórnskipun landsins ráð fyrir því að Alþingi hafi eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Með því móti mætti ljá slíkri stofnun nauðsynlegan trúverðugleika í augum almennings, sambærilegan við það góða traust sem umboðsmaður Alþingis nýtur. Á þann hátt er enn fremur komið í veg fyrir tengsl stofnunarinnar við löggæsluyfirvöld, enda yrði stofnun á vegum Alþingis mun betur aðskilin frá framkvæmdarvaldinu en ef til að mynda um undirstofnun ráðuneytis væri að ræða. Eftirlitsstofnun af því tagi krefst vald- og rannsóknarheimilda sem nánar er getið í greinargerð með tillögunni. Þar er einnig sérstakur kafli um sjálfstæði stofnunarinnar og hvernig tryggja megi það sem best.

Virðulegi forseti. Í opnu lýðræðisþjóðfélagi er nauðsynlegt að gagnkvæmt traust ríki milli lögreglunnar og borgaranna. Í því sambandi er nauðsynlegt að almenningur hafi trú á því að kvartanir og kærur vegna brota lögreglumanna innan starfs sem utan fái réttláta og óvilhalla meðferð stjórnvalda, ákæruvalds og dómstóla. Þau lönd sem við berum okkur saman við hafa leitast við að ná því markmiði með ýmsu móti, en öll hafa þau gripið til úrræða til að gera kvörtunar- og kæruleiðir sem greiðastar og koma á fót eftirlits- og rannsóknastofnunum sem eru óháðar lögreglunni. Ég fer ekki nánar yfir framkvæmdina í öðrum löndum hér, en sérstakur kafli í greinargerð með tillögunni er helgaður því efni.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillaga þessi gangi til síðari umræðu og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.