145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að tvískinnungur og hræsni hefur einkennt sum viðbrögð forustumanna í ríkjum Bandaríkjanna og Evrópu. Við þurfum ekkert sérstaklega að tala um Brussel. Við vitum náttúrlega hvernig sá maður sem er forustumaður Evrópusambandsins í dag hafði sérstakt frumkvæði að því meðan hann var forsætisráðherra í Lúxemborg að gera það örríki að einhverju stærsta skattaskjóli sem að minnsta kosti á þeim tíma stóð innan vébanda Evrópu. En það breytir ekki hinu að við sem stjórnmálamenn hljótum alltaf að leggja okkur fram um að koma í veg fyrir að einhverjir geti skotið sér hjá því að byggja upp þá velferð sem við þrátt fyrir allt erum sammála um að við stefnum að. Það er mergurinn málsins.

Hv. þm. Frosti Sigurjónsson má mín vegna leggja fram frumvarp og berjast gegn því að íslenskir diplómatar séu undanþegnir sköttum. Það er sjónarmið. Saman erum við alla vega á þeirri skoðun að við viljum ekki að lögin séu með þeim hætti að þau skapi mönnum færi á því með einhvers konar lagagloppum að setja sig beinlínis í stöðu þar sem fólk segist ekki hafa svikið undan skatti en við sem stjórnvald höfum engin tök á að sannreyna það. En þannig er staðan í dag. Það er að minnsta kosti eitt sem við getum tekið á, það er skavanki sem hægt er að skera af. Af því að því var löngum haldið fram, herra forseti, af núverandi ríkisstjórn að ekki væri hægt að setja til dæmis lög sem bönnuðu reikninga í aflandseyjum sem ekki uppfylltu upplýsingakröfur sem skattyfirvöld þurfa til þess að geta sannreynt upplýsingarnar þá var það Eftirlitsstofnun EFTA sem að eigin frumkvæði, andspænis þeirri umræðu sem kom upp á Íslandi, yfirlýsingum frá íslenskum forustumönnum, steig fram fyrir skjöldu og sagði: Þetta er víst hægt. Þá höfum (Forseti hringir.) við það svart á hvítu. Sú afsökun sem var logið hér lengi í fólk (Forseti hringir.) er ekki lengur fyrir hendi.